Leitar- og björgunarsvæði Landhelgisgæslunnar er 1,9 milljónir ferkílómetra og efnahagslögsagan 758.000 ferkílómetrar. Stefnt er að því að taka í notkun nýtt varðskip síðar á þessu ári. Böndin berast helst að þjónustuskipinu GH Endurance, geysiöflugu, 88 metra löngu skipi með  tveimur, samtals 16.000 hestafla aðalvélum og 210 tonna dráttargetu.

Varðskipinu Ægi var lagt árið 2015 og frá tíma hefur Landhelgisgæslan haft tvö skip í rekstri, Þór og Tý, með tveimur föstum áhöfnum en einungis annað skipanna hefur verið í úthaldi hverju sinni. Í byrjun þessa árs komu í ljós það umfangsmiklar skemmdir á Tý að ekki var talið borga sig að gera við skipið. Því var lagt og ríkisstjórn Íslands ákvað að varið yrði einum milljarði króna eða meira til kaupa á notuðu skipi. Líklegt er að þetta skip verði GH Endurance eins og greint var frá á fiskifrettir.is síðastliðinn föstudag.

GH Endurance er mikill barkur og nýtist vel í dráttarverkefnum sem dæmi, sem eru flókin en algeng. Aðsend mynd
GH Endurance er mikill barkur og nýtist vel í dráttarverkefnum sem dæmi, sem eru flókin en algeng. Aðsend mynd

  • GH Endurance er mikill barkur og nýtist vel í dráttarverkefnum sem dæmi, sem eru flókin en algeng. Aðsend mynd

„Það gefur náttúrulega auga leið að eitt skip getur ekki annað verkefnum á sviði mengunar-, fiskveiðieftirlits í efnahagslögsögunni og síðan einnig verkefnum á leitar- og björgunarsvæði Íslands sem er ennþá stærra,” segir Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.”

Landhelgisgæslan ber ábyrgð á því gagnvart Alþjóða flugmálastofnuninni og Alþjóða siglingamálastofnuninni og með tilliti til Hafréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leitar- og björgunaraðgerðir fari fram á leitar- og björgunarsvæðinu en það felur þó ekki óhjákvæmilega í sér að íslensk varðskip eða loftför sinni því.

Breytt skipaumferð

Danir eru vanalega með eitt stórt varðskip við Færeyjar og Færeyingar halda sjálfir úti tveimur meðalstórum varðskipum. Að öllu jöfnu halda Danir einnig úti 3-4 varðskipum við Grænland og mest við vestanvert Grænland. Íslenska leitar- og björgunarsvæðið nær upp að austursströnd Grænlands og Íslendingar eru ábyrgir fyrir leit og björgun á því svæði allt norður fyrir Jan Mayen. Leitar- og björgunarsvæðið nær einnig austur fyrir Færeyjar en samkomulag er við Færeyinga um að þeir sinni verkefnum á því sviði innan sinnar fiskveiðilögsögu með tilliti til sjófara en Íslendingar með tilliti til loftfara.

„Breytingar hafa orðið á skipaumferðinni við Ísland. Skip sem gætu þurft á aðstoð að halda eru mun stærri en áður. Flóknustu verkefnin sem við höfum sinnt frá því Þór kom til landsins fyrir tíu árum eru einmitt dráttarverkefnin. Þór hefur höndlað þau vel en við höfum gert okkur grein fyrir því að þetta verða áfram flóknustu verkefnin sem við þurfum við að eiga.”