Í dag afhenti Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðstjóri hjá Matís, Einari Kristni Guðfinnssyni forseta Alþingis 63 eintök af bæklingnum „Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski“, sem Matís lét endurprenta nú fyrir skemmstu, að því er fram kemur á vef Matís.
Sjávarútvegsmál standa Íslendingum nærri, enda hefur sjávarútvegurinn verið ein af undirstöðu atvinnugreinum landsins og gjöful tekjulind. Því er ekki að undra að flestir hafi skoðun á sjávarútveginum og sérstaklega þingmenn. Í umræðu um sjávarútveg er þó sjaldan rætt um það sem öllu máli skiptir ef verðmæti á að vinna úr afurðunum, það er að segja, mikilvægi góðrar meðhöndlunar fisks frá því að hann er dreginn úr sjó, svo varðveita megi þau gæði sem fiskurinn býr yfir. Gæði eru grunnur verðmæta.
Því þótti við hæfi að afhenda alþingismönnum bæklinginn: „Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski“, sem var endurprentaður í sumar af Matís. Bæklingurinn tekur einkum á þeim fimm þáttum sem mestu skipta við meðhöndlun á fiski, nýdregnum úr sjó; blóðgun, slægingu, þvott, hreinlæti og kælingu. Víðtæk þekking á mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski á erindi við alla, ekki síður við þá sem ræða um stjórn veiða en þá sem veiðarnar stunda.
Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, tók við bæklingnum fyrir hönd alþingismanna. Hann var mjög ánægður með framtakið og sagði meðal annars: „Þetta er mjög þarft og gott frumkvæði af hálfu Matís. Góð hráefnismeðhöndlun felur í sér enn frekari tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg og getur stuðlað að stóraukinni verðmætasköpun.“
Sjá nánar
http://www.matis.is/um-matis/frettir/nr/3776