Nóg er um að vera hjá Vélfagi þessa daganna þar sem fyrirtækið er að afhenda fyrstu þrjár UNO vélarnar til viðskiptavina. UNO er byltingarkennd fiskvinnsluvél og í fyrstu útgáfu mun vélin taka inn hausaðan og slægðan fisk og skila af sér roðlausum og beinlausum flökum.
Tvær UNO vélar eru nú á leiðinni yfir Atlantshafið þar sem þær verða afhentar norsku útgerðinni BlueWild og verða settar upp í frystitogaranum EcoFive. Gert er ráð fyrir að skipið fari sinn fyrsta sjótúr í Júní og verða þar með fyrstu UNO vélarnar um borð í skipi.
Fiskvinnslan Kambur fjárfesti síðastliðinn nóvember í UNO og stendur þessa daganna yfir undirbúningur fyrir uppsetningu vélarinnar. Þetta verður fyrsta UNO vélinn sem verður tekinn í notkun fyrir landvinnslu og mun vinna ýsu. Gert er ráð fyrir að vélin verði komin í notkun á næstu misserum.
Mikill áhugi frá greininni
„Við finnum fyrir miklum áhuga frá greininni á þessari nýju lausn og við vitum að það eru margir aðilar sem bíða spenntir eftir að sjá og fá fregnir af hvernig fyrstu vélarnar munu standa sig í vinnslu. Þetta er búin að vera löng vegferð að þróa og hanna þessa byltingakenndu vél og erum við því gríðarlega spennt að vera loksins komin á þann stað að geta sýnt sjávarútveginum hvað vélinn getur í raun“ segir Andri Fannar Gíslason, þróunarstjóri Vélfags.