Hrefnuveiðar hófust loksins um síðustu helgi þegar Rokkarinn KE tók tvö dýr. Dýrin voru tveir fallegir tarfar og veiddust í Faxaflóa.
Gunnar Bergmann, framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna, segir að veður hafi sett mikið strik í reikninginn í upphafi vertíðar og valdið því að hrefnuveiðar eru að byrja mun seinna núna en síðustu ár.
„Þetta er búið að vera skelfilegt ástand sem af er vori. Ég ætlaði að vera byrjaður í lok maí, en svo hefur gengið illa hjá Rokkaranum KE, sem gerður er út frá Keflavík, í nokkra túra þá fáu góðviðrisdaga sem hafa gefist,“ segir Gunnar. Spurður hvort ekki hafi sést til hrefnu á hefðbundinni slóð, segir Gunnar svo vera en mun minna en oft hefur verið. Þó hafi ekki verið mikið líf í maí síðustu árin, en þetta sé vissulega seinna á ferðinni núna.
Hrafnreyður KÓ heldur af stað til veiða á morgun og verður fram að hádegi á laugardag þegar bátar þurfa að snúa til hafnar vegna sjómannadags um komandi helgi.
„Það er vonandi að það komi kippur í þetta núna,“ segir Gunnar. Spurður hvað hann sjái fyrir sér að taka mörg dýr í sumar segir Gunnar að í nokkurn tíma hafi hann gert út tvo báta til veiðanna og skilaði sér í 46 veiddum hrefnum – en þær voru 29 árið 2015.
„Ég hef á undanförnum tveimur árum þurft að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi til að mæta eftirspurn. Ég þurfti ekki að gera það núna en birgðir kláruðust um miðjan maímánuð. Það er því gott að fá kjöt núna, því eftirspurnin er mikil – sérstaklega frá veitingahúsunum,“ segir Gunnar.
Spurður um ágreining við hvalaskoðunarfyrirtækin sem gera út á Faxaflóa segir Gunnar að seint náist samkomulag á milli þeirra sem veiða og sýna hval.
„Við getum ekki verið að hugsa um þetta en förum örugglega áfram í taugarnar á einhverjum. Ennþá hefur línan á Faxaflóa haldið – frá Akranesi út að Garðsskagavita – og við erum að líta eftir hval langt utan við þá línu, og hvalaskoðunarfyrirtækin að fara með sína gesti á staði langt innan hennar. Þess vegna eru engir árekstrar, nema menn séu að elta þá uppi. Við höfum reynt að vera ekki fyrir,“ segir Gunnar sem gerir ráð fyrir að annar hvalveiðibáturinn fari norður á Siglufjörð til veiða í sumar. Eftir miðjan júlímánuð verði einnig annar báturinn gerður út frá Akranesi.
„Þá ætti að verða ennþá minni truflun af okkur,“ segir Gunnar.
Kjötið af dýrunum kom til vinnslu í Hafnarfjörð og hefst dreifing á kjötinu í dag.