Fyrstu tekjur af starfsemi landeldisfyrirtækisins Laxeyjar í Vestmannaeyjum verða til við sölu á seiðum strax næsta vor, nokkru áður en fyrstu löxunum verður slátrað í nóvember 2025. Þetta helgast af umframframleiðslu á seiðum í seiðaeldisstöð fyrirtækisins og mikilli eftirspurn innlendra framleiðenda eftir stórseiðum. Seiði eru nú að fara úr seiðaeldisstöðinni í áframeldið í Viðlagafjöru. Þetta kemur fram í fróðlegu viðtali Eyjafrétta við Lárus Ásgeirsson, stjórnarformann Laxeyjar, sem sjá mér hér.

Framleiðsluverðmæti um 30 milljarðar á ári

Lárus segir þar að uppbygging seiða- og laxeldis á vegum fyrirtækisins sé ein stærsta framkvæmd á Íslandi án aðkomu hins opinbera. Framleiðsluverðmæti verði um 30 milljarðar króna á ári þegar starfsemin er komin í fullan gang. Hann segir að geri megi ráð fyrir að heildarfjárfestingin verði um 60 milljarðar króna.

„Við erum mjög þakklát fyrir stuðning frá fjölskyldu Sigurjóns Óskarssonar sem skipti sköpum í upphafi. Það á líka við aðra fjárfesta sem koma frá Vestmannaeyjum og víðar á Íslandi, fjölskyldum og starfsmönnum. Þrír lífeyrissjóðir hafa komið sterkt inn og fleiri mætti nefna,“ segir Lárus.

Lárus Ásgeirsson.
Lárus Ásgeirsson.
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

„Fyrr á þessu ári fórum við af stað og með að fá inn erlenda fjárfesta með fjármagn og þekkingu í eldi og sölu á afurðum. Töldum það gott fyrir félagið og það tókst ágætlega. Erlendir aðilar eiga nú um 20 prósent í Laxey. Fjölskylda Sigurjóns á tæplega helming hlutafjár. Það hefur vakið mikla athygli hjá bönkum og öðrum að finna þennan mikla áhuga á því sem við erum að gera og hvað hlutahafahópurinn er traustur,“ segir Lárus í viðtalinu við Eyjafréttir.