Í síðustu viku útskrifaðist fyrsti árgangur Marel vinnslutækna frá Fisktækniskóla Íslands. Þetta nám er tilsniðið að þörfum fiskvinnslunnar sem er sífellt að verða tæknivæddari með áherslu á framleiðslugæði og hámarksnýtingu hráefnis. Mikill skortur er á fólki með ákveðna tækni-, hugbúnaðar- og vinnsluþekkingu í fiskiðnaði og svarar þetta nám kalli iðnaðarins, að því er segir í frétt frá Marel.
Að loknu námi hafa nemarnir góða innsýn í virkni tækja og hugbúnaðar í fiskvinnslu og geta sinnt ákveðnu fyrirbyggjandi viðhaldi ásamt því að geta sett upp einfalda staðlaða vinnslulykla í helstu Marel tækjum.
Átta manns luku námi í þessum fyrsta áfanga. Nemendur komu frá ýmsum stöðum á landinu svo sem Reykjavík, Vestmannaeyjum, Sandgerði, Akranesi og Grindavík.
Sjá nánar um námið á vef Marel.