Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar síðdegis í gær með fyrsta kolmunnafarminn frá miðunum vestur af Írlandi, 1.700 tonn. Í kjölfar hans kom síðan Börkur NK með 2.300 tonn og er verið að landa úr honum í dag. Þá er Margrét EA að landa 2.000 tonnum á Seyðisfirði. Beitir NK lagði af stað af miðunum í morgun með rúm 3.000 tonn.
Frá þessum góðu aflabrögðum segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Heimasíðan ræddi við Gísla Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, og spurði hvernig heimsiglingin hefði gengið en eins og kunnugt er eru skipin að veiðum í um 800 mílna fjarlægð frá löndunarhöfnunum á Austfjörðum.
„Heimsiglingin tók hvorki meira né minna en fjóra og hálfan sólarhring. Fyrstu tveir sólarhringarnir voru ágætir en síðan skall á kolbrjálað veður og tíu metra ölduhæð. Við slóguðum bara í hátt í tvo sólarhringa. Það er ágætis veiði þarna á miðunum þegar viðrar, en staðreyndin er sú að þetta er ógeðslegt svæði veðurfarslega. Svei mér þá ef maður er ekki að verða
of gamall í þetta,“ segir Gísli.