Samey Robotics og LAXEY hafa undirritað samning um fyrsta róbótann sem verður á sleða fyrir laxasláturhús landeldisfyrirtækisins LAXEYJAR í Vestmannaeyjum. Til þess að spara gólfpláss mun róbótinn sitja á sleða sem færir hann úr stað svo hægt sé að stafla 25 kg laxakössum á 6 bretti sem liggja samsíða á gólfinu. Róbótakerfið mun lesa á miða á kössunum og stærðarflokka á brettin miðað við gefnar upplýsingar.

Samey Robotics er 35 ára gamalt íslenskt hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í sjálfvirknilausnum með róbótum. Fyrirtækið hefur afhent yfir 200 róbótakerfi í fjölmörgum löndum og eru flest kerfin í laxavinnslum á Íslandi, Noregi, Færeyjum, Kanada og Bretlandi.

Kristmann Kristmannsson, verkefnisstjóri vinnslu og innkaupa hjá LAXEY, segir að tímabundið vinnsluhúsnæði fyrirtækisins í Vestmannaeyjum leyfi ekki hefðbundna róbóta lausn vegna plássleysis og því kom hugmynd að þessari nýju lausn með færanlegum róbót. „Íslenskt hugvit og gríðarlega mikil reynsla í vinnslubúnaði getur oft gert kraftaverk í að leysa það sem sýnist vera vandamál. Ef þessi lausn hefði ekki komið til væri eina leiðin sú að stafla kössunum með handafli sem væri þá mest slítandi og líkamlega erfiðasta starfið í vinnslunni.“

Róbótinn kemur í veg fyrir að stafla þurfi kössunum með handafli sem væri þá mest slítandi og líkamlega erfiðasta starfið í vinnslunni.
Róbótinn kemur í veg fyrir að stafla þurfi kössunum með handafli sem væri þá mest slítandi og líkamlega erfiðasta starfið í vinnslunni.

Valdimar Gunnar Sigurðsson, yfirmaður sölu og verkefnastjórnunar hjá Samey Robotics, segir þetta fyrstu lausnina sem fyrirtækið afhendi sem er með róbót á færanlegum sleða.

Róbótinn tekur við kassanum eftir að hann kemur úr kassabindivélinni og er þá búið að loka kassanum og hann komin með miða sem sýnir hvaða stærð af fiski er í honum. Skanni les af miðanum svo róbótinn veit á hvaða bretti hann á að raða.

Kerfið er afkastamikil lausn sem tekur ekki mikið pláss og þekkir Samey Robotics dæmi þess frá Noregi að við sambærilega vinnslu og LAXEY verður með í fyrstu þurfi fjórir starfsmenn sem skiptast á að vinna tveir og tveir í um 1,5 klukkustund í senn til að ráða við afköst sláturkerfisins.