Fyrsti norski loðnubáturinn hefur nú haldið til veiða í íslenskri lögsögu á vetrarvertíð, að því er fram kemur á vef norska síldarsölusamlagsins.
Norsk skip hafa heimild til að veiða um 40.200 tonn af loðnu í íslenskri lögsögu að þessu sinni. Á vef síldarsölusamlagsins er fjallað um veiðar íslensku skipanna og þar kemur fram að þau hafi nú þegar veitt um sex þúsund tonn af loðnu norður og norðaustur af landinu. Vont veður hafi verið á miðunum en búist sé við því að veður lægi um helgina.
Norðmenn mega stunda loðnuveiðar í nót við Ísland norðan við 64°30´N á tímabilinu 1. nóvember 2014 til 15. febrúar 2015. Þess má geta að Norðmenn veiddu um 30.500 tonn af loðnu úr íslenska stofninum í grænlenskri lögsögu síðastliðið sumar.