Faxi RE kom til Vopnafjarðar í gærkvöldi með fyrsta afla síldar-og makrílvertíðarinnar og er reiknað með því að löndun ljúki síðar í dag. Heildaraflinn í veiðiferðinni var um 360 tonn. Uppistaða aflans var makríll en einnig fengust um 50 tonn af síld, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Albert Sveinsson skipstjóri segir í spjalla á heimasíðu félagsins að farið hafi verið frá Akranesi sl. fimmtudag til Reykjavíkur þar sem flottrollið var tekið um borð. Um sólarhring síðar hófust veiðarnar á svæðinu suðaustur úr Hvalbakshallinu.

,,Við tókum alls fjögur hol en það er mjög erfitt að meta ástandið nú í byrjun vertíðar. Við lentum í leiðinda veðri allan túrinn. Sjávarhitinn var svipaður og á síðustu vertíðum eða frá um 9°C og upp í 10,5°C en líkt og áður lóðar mest á makrílinn þar sem hitaskil er að finna,“ segir Albert en að hans sögn var makríllinn í veiðiferðinni heldur smærri en verið hefur á sama tíma undanfarin ár. Mest var reyndar um makríl um eða yfir 400 grömm að þyngd en í lok veiðiferðarinnar varð vart við makríl allt niður í 300 grömm.

Auk Faxa voru ein fjögur önnur skip að veiðum á veiðisvæðinu fyrir austan en töluverður fjöldi skipa hefur einnig verið að veiðum fyrir vestan land en þar hefur fengist þó nokkuð að íslenskri sumargotssíld sem aukaafli með makrílnum.


Nú í sumar voru settir nýir andveltitankar í Faxa og Lundey NS sem enn er ekki farin til veiða. Albert segir það mat skipverja á Faxa að nýi tankurinn virki vel og hafi haft róandi áhrif á hreyfingar skipsins í því leiðinda sjólagi sem var í veiðiferðinni.