Fyrsti skammturinn af laxi hefur verið fluttur úr stórseiðahúsi LAXEY yfir í fiskeldiskerin og markar þetta tímamót í áframeldi félagsins. Þetta er stórt skref í átt að varanlegum og stöðugum rekstri, segir á heimasíðu LAXEY. Kerin eru 28 metrar í þvermál og 13 metrar á hæð og rúma samtals 5.000 rúmmetra af sjó, sem dælt er upp úr borholum.

Stefnir í 42.000 tonna framleiðslugetu

Fyrsti áfangi í sex skrefa uppbyggingu LAXEY er nú að ljúka og undirbúningur næsta áfanga þegar hafinn. Í hverjum áfanga verða reist og starfrækt átta slík fiskeldisker. Þegar uppbyggingu lýkur verður árleg framleiðslugeta fyrirtækisins allt að 42.000 tonn af laxi.

Starfsemin hófst með byggingu hátæknivæddrar seiðastöðvar í Friðarhöfn, þar sem notast er við lokað RAS-kerfi sem endurnýtir vatnið að mestu leyti. Stöðin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, fór í fulla starfsemi í ágúst á síðasta ári.

Fyrsta slátrun í haust

Fyrsti skammturinn af seiðum var fluttur í stórseiðahúsið í nóvember síðastliðnum og annar skammtur fylgdi í apríl. Nú þegar hafa fimm skammtar verið fluttir til eldis: þrír eru í ræktun í seiðastöðinni og tveir eru komnir í áframeldi. Núverandi skammtur sem fór í kerin hefur nú þegar náð 1.200 grömmum að meðalþyngd.

Framkvæmdir við uppbygginguna hafa gengið samkvæmt áætlun, samhliða ræktun lífmassa. Áætlað er að fyrsta slátrun fari fram haustið 2025 og undirbúningur fyrir sláturhús, sem staðsett verður í Viðlagafjöru, er nú þegar hafinn.