Fyrsta skóflustunga að nýrri hátækni landeldisstöð GeoSalmo, sem staðsett verður vestan við Þorlákshöfn, var tekin í gær. Viðburðurinn markar tímamót í starfsemi fyrirtækisins en stefnt er að því að stöðin verði tekin í notkun 2026. Þar sem allra veðra er von á þessum árstíma var gestum boðið upp á beint streymi frá skóflustungunni sjálfri í Ráðhúsi Ölfuss.

Með stærstu einaframkvæmdum á Íslandi

„Við höfum unnið hörðum höndum undanfarin tvö ár að því að hanna og undirbúa stöðina og þar af leiðandi eru þetta mikill gleðidagur. Fiskeldisstöðin og tengdar byggingar sem við tókum fyrstu skóflustunguna að í dag eru meðal stærstu framkvæmda sem einkaaðili hefur ráðist í á Íslandi og ef rétt er haldið á málum getur landeldi orðið að nýrri undirstöðuatvinnugrein hér á landi,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri GeoSalmo.

Fullbyggð landeldisstöð GeoSalmo verður með framleiðslugetu upp á 24 þúsund tonn á ári, en með fyrsta áfanga verður framleiðslugetan um 7.500 tonn. Stefnt er að því að fyrstu afurðir komi á markað um mitt ár 2027 en fyrsta fasa fjármögnunar lauk í lok síðasta árs með þátttöku norskra, sænskra, íslenskra og hollenskra fjárfesta. Meðal þeirra fjárfesta sem komu nýir að verkefninu eru Skel fjárfestingafélag, Úthafsskip og eigendur sjávarútvegsfélagsins Eskju ásamt norsku iðnaðarsamsteypunni Endúr ASA og tengdum aðilum og svo hollenska fiskvinnslu- og dreifingarfyrirtækinu Adri & Zoon.

Fullbyggð landeldisstöð GeoSalmo verður með framleiðslugetu upp á 24 þúsund tonn á ári, en með fyrsta áfanga verður framleiðslugetan um 7.500 tonn.
Fullbyggð landeldisstöð GeoSalmo verður með framleiðslugetu upp á 24 þúsund tonn á ári, en með fyrsta áfanga verður framleiðslugetan um 7.500 tonn.

Það voru þau Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Hreiðar Hreiðarsson, eldisstjóri GeoSalmo, sem tóku fyrstu skóflustunguna.

„Ég fagna því að hér séu aðilar sem sem eru reiðubúnir að fjárfesta verulega til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar hér í Ölfusi. Fjárfesting sem þessi er afar mikilvæg fyrir samfélagið hér sem og nærliggjandi svæði enda mun hún efla hagkerfið og stuðla að samfélagsþróun. Þetta er ekki bara spurning um að byggja upp eitt stórt verkefni heldur að skapa varanlega blómstrandi samfélag sem kemur til með að skipta máli fyrir þjóðarbúið allt“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.

„Laxeldi verður sífellt mikilvægari þáttur í próteinframleiðslu heimsins. Því er afar ánægjulegt að sjá kraftinn sem hefur einkennt áform fyrirtækisins í landeldi“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Mikið fagnaðarefni

„Við heimamenn er með mjög skýra sýn á mikilvægi þess að marka okkur sérstöðu í framleiðslu á umhverfisvænum matvælum. Með nýrri landeldisstöð GeoSalmo við Þorlákshöfn eykst enn slík starfsemi. Við þekkjum vel að velferð verður ekki fengin nema á forsendum verðmætaframleiðslu. Verkefnið hefur verið lengi í mótun og ýmsir aðilar komið að borðinu með metnað til þess að byggja upp ábyrga starfsemi til frambúðar. Það er því mikið fagnaðarefni að fyrsta skóflustungan hafi verið tekin og það styttist þar af leiðandi í að starfsemin hefjist,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

GeoSalmo stefnir á að verða leiðandi aðili í þróun fiskeldis á landi á Íslandi. Frá upphafi hefur grundvallaráherslan verið á framleiðslu hágæða afurða og fiskavelferð með lágmörkun umhverfisáhrifa og vistspors auk þess að hafa starfsemina í góðri sátt við umhverfi og samfélag. Fyrirtækið hefur samið við Orku náttúrunnar um kaup á raforku auk þess sem umhverfismatsskýrsla þess hefur verið samþykkt af Skipulagsstofnun.