Líftækni- og útgerðarfyrirtækið Aker Biomarine í Noregi hefur um árabil veitt ljósátu við Suðurskautslandið og framleitt meðal annars úr henni Omega 3 fitusýrur til manneldis. Nýlega samdi Aker Biomarine við Vard skipasmíðastöðina í Noregi um smíði á fullkomnu ljósátuskipi sem er sérstaklega hannað fyrir sjálfbærar veiðar á þessu hafsvæði.

[email protected]

Skipið, Antartic Endurance, er 130 metra langt og mesta breidd er 23 metrar. Það verður búið hátæknivæddum búnaði fyrir umhverfisvænar veiðar. Allar teikningar og búnaður skipsins var samstarfsverkefni Vard og sjómanna og vísindamanna Aker Biomarine. Um borð verður búnaður til þess að framleiða Omega 3 fitusýrur úr ljósátu og hráefni til fóðurframleiðslu.

14,5 milljarðar króna

Aker Biomarine hefur tekið við skipinu og heldur það til veiða við Suðurskautslandið á næstu vertíð sem stendur yfir frá desember til september. Smíði skipsins kostar alls um einn milljarð norskra króna, eða um 14,5 milljarð íslenskra króna.

Ekkert er sparað til þess að gera skipið sem hæfast til veiða við erfiðar aðstæður við Suðurskautslandið. Skrokkurinn er sérstaklega hannaður til að auka stöðugleika skipsins. Vinnslan og rannsóknarstofur í skipinu verða með svokölluðu MRPC höggdeyfikerfi til að draga úr áhrifum á vinnuumhverfið í vondum veðrum. Ljósdíóður lýsa upp skipið sem dregur úr orkunotkun til lýsingar um 75% og orkustýringarkerfi þess getur endurheimt hitaorku. Umhverfissjálfbærni skipsins verður 30% meiri en hefðbundinna togara.

Lífmassi upp á 370 milljónir tonna

Áhöfnin verður um borð í marga mánuði í senn. Dvölin er gerð bærilegri með líkamsræktar- og tómstundaaðstöðu, betri umhverfislýsingu og tölvustýringu og sjálfvirkni í vinnslunni. Önnur ljósátuskip eru eldri skip sem hefur verið breytt fyrir þessa tegund veiða. Antartic Endurance er hins vegar fyrsta sérsmíðaða ljósátuskip heims

Í grein í Undercurrent News er sagt frá því að áform Aker Biomarine falli ekki endilega náttúruverndarsinnum í geð. Suðurskautsljósátan er nýtt til framleiðslu á heilsuvörum, mat, bragðefnum, fæðubótarefnum, dýra- og fiskafóður. Ljósátan er lykiltegund í vistkerfi Suðurskautslandsins og mikilvæg fæða fyrir hvali, mörgæsir og seli. Talsverður styrr hefur staðið um þessar veiðar.

Antartic Endurance verður þriðja skip Aker Biomarine sem stundar ljósátuveiðar á þessu hafsvæði. Hin skipin tvö, Antartic Sea og Saga Sea, veiddu 155.300 tonn af ljósátu árið 2016, samkvæmt umhverfissamtökunum Sustainable Fisheries Partnership.

Veiðum á ljósátu við Suðurskautslandið er stjórnað af framkvæmdastjórn um verndun sjávarauðlinda við Suðurskautslandið, CCAMLR, sem 24 ríki eiga aðild að, þar á meðal Evrópusambandið. Samkvæmt CCAMLR er lífmassi Euphausia superba ljósátunnar talinn vera um 379 milljónir tonna. Heimilt er að veiða 8,9 milljónir tonna á ári á mörgum mismunandi svæðum.