Yara Birkeland verður fyrsta fullkomlega mengunarlausa, rafdrifna og sjálfstýrða gámaskip í heimi. Skipið verður smíðað af Vard skipasmíðastöðinni í Noregi og Rúmeníu. Hátæknifyrirtækið Kongsberg Maritime þróar og framleiðir grunntæknina í skipið, svo sem skynjara og samþættingu fyrir fjarstýrða og sjálfstýrða siglingareiginleika þess, rafaflrásina og rafgeymasamstæðurnar.
Lengd skipsins verður tæpir 80 metrar og það verður 14,8 metrar á breidd. Hámarkssiglingahraði er 13 hnútar en 6 hnútar fullhlaðið. Það getur flutt 120 tuttugu feta gáma. Það verður að öllu leyti rafdrifið og verður í fyrstu með áhöfn. Þegar innviðir eru tilbúnir verður skipið áhafnarlaust og sjálfstýrt.
Af vegum út á sjó
Ætlunin með skipinu er að færa vöruflutninga af vegum Noregs út á sjó og draga þannig úr álagi á vegakerfið og draga um leið úr köfnunarefnis- og koltvísýringslosun. Með skipinu dregur úr ferðum dísilknúinna vöruflutningabíla um 40.000 ferðir á ári með tilheyrandi samdrætti í losun mengandi lofttegunda og sóts og auknu umferðaröryggi.
Skipið er smíðað fyrir efna- og tækniframleiðandann Yara í Noregi, sem m.a. framleiðir áburð og tæknilausnir fyrir landbúnaðinn, Ad-blue efni fyrir dísilbíla, efnahvarfakúta og margvíslega aðra vöru sem miðar að því að draga úr mengandi útblæstri. Skipið er því í góðum takti við kjarnastarfsemina þar sem það kemur til með að verða fullkomlega mengunarlaust og auk þess draga verulega úr vöruflutningum á landi með dísilknúnum flutningabílum.
Sjálfvirk ferming og afferming
Ferming og afferming skipsins verður skipsins verður sjálfvirk með rafdrifnum krönum og tækjabúnaði. Engir kjölfestutankar eru í skipinu en rafgeymasamstæðurnar gegna hlutverki þeirra. Skipið leggst sjálfvirkt og án mannlegrar aðkomu að bryggju. Það mun sigla milli þriggja hafna í Suður-Noregi og flytja vörur frá verksmiðju Yara í Porsgrunn til hafna í Brevik og Larvik.
Skipið verður afhent Yara á fyrsta ársfjórðungi 2020 og verður farið að sigla sjálfstýrt og ómannað árið 2022. Kostnaður við smíði þess verður 250 milljónir NOK, tæpir 3,2 milljarðar ÍSK.