Þorbjörn hf. í Grindavík hefur samið við skipasmíðastöðina Armon á Spáni um smíði á 58 metra löngum og 13,6 metra breiðum ísfisktogara. Skipið er hannað af Sævari  Birgissyni hjá Skipasýn ehf. Í nánu samstarfi við starfsmenn Þorbjarnar. Ráðgert er að smíðinni ljúki á fyrri hluta árs 2024.

„Við vorum loks að klára að gera samning við Armon um smíði á skipi. Við höfum haft þetta í maganum í dálítinn tíma. Það eru alveg tvö ár í það að við tökum ákvörðun um breytingar á skipaflotanum okkar en auðvitað er þetta liður í því að endurnýja flotann okkar,“ segir Gunnar.

Hann bendir á að undanfarin ár hefur Þorbjörn hf. tekið úr rekstri þrjú línuskip og tvo frystitogara en í staðinn hefur fyrirtækið keypt frystitogara frá Grænlandi og ísfisktogara frá Vestmannaeyjum. Nú heldur Þorbjörn hf. áfram endurnýjun skipaflota fyrirtækisins og væntanlega verða enn nokkrar breytingar á núverandi útgerð þó að það hafi ekki enn verið ákveðið.

  • Tölvuteikning af nýjum ísfisktogara Þorbjarnar, en hann er væntanlegur heim árið 2024. Aðsend mynd

Með nýja ísfisktogaranum má búast við að ferskfiskvinnsla fyrirtækisins aukist enn frekar. Þorbjörn hf. hefur einnig verið umsvifamikill saltfiskverkandi.

Gunnar segir að leitað hafi verið til Sævars Birgissonar hjá Skipasýn um hönnun á skipinu enda virðist hann hafa fundið línu í þessum efnum sem íslenskar útgerðir eru mjög sáttar við. Nefnir hann þar til sögunnar velheppnuð skip eins og systurskipin Breka VE og Pál Pálsson ÍS, sem komu til landsins 2918, sem og nýjan Baldvin Njálsson GK sem kom í lok síðasta árs. Gunnar segir nýja skipið mikla fjárfestingu en vildi ekki á þessu stigi upplýsa hvert smíðaverðið er.

„Þetta er fyrsta nýsmíðin frá því pabbi stóð í þessu árið 1967. Þá voru smíðuð fimm ný skip á tólf ára tímabili. Þegar við Eiríkur bróðir minn byrjuðum að vinna með pabba voru þau í fullum rekstri. Lengi vel héldum við þeim vel við sem svo þróaðist út í breytingar og endurnýjun yfir í önnur skip,“ segir Gunnar.

Með sparneytnustu skipum

Við hönnun skipsins hefur verið lögð rík áhersla á að draga úr orkunotkun og þar með að umhverfisáhrif þess verði sem minnst. Aðalvél skipsins sem verður um 2400 KW knýr skrúfu sem verður 5 metrar í þvermál. Stærð og snúningshraði skrúfunnar verður lægri en áður hefur þekkst í eldri fiskiskipum af sambærilegri stærð. Skipið verður þess vegna sérlega sparneytið og í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki. Þá verður skipið búið til veiða með tveimur botnvörpum samtímis og togvindurnar knúnar rafmagni.

Í hönnun skipsins er sérstaklega litið til sjóhæfni þess með tilliti til öryggis og bættrar vinnuaðstöðu. Áhersla er lögð á að aðbúnaður áhafnar verði sem bestur og allir skipverjar hafa sínar eigin vistarverur og hreinlætisaðstöðu.

Gert er ráð fyrir því við hönnun skipsins að auðvelt verði að breyta því í frystitogara ef það hentaði á einhverjum tíma í rekstri skipsins.

Mesta breytingin frá eldri skipum Þorbjarnar hf. varðandi vinnslu og meðferð aflans er sú að sjálfvirk flokkun á aflanum fer fram á vinnsludekki skipsins og frágangur aflans í fiskikör fer fram á einum stað á vinnsludekkinu. Þaðan fer aflinn í lyftum niður í lest og verður lestarvinnunni eingöngu sinnt af fjarstýrðum lyftara sem rennur á loftbita í lest skipsins. Auk þess að annast flutning og stöflun á fiskikörum verður lyftarinn notaður við losun skipsins þegar það kemur til hafnar.