Norska uppsjávarskipið Fiskabas er fyrsta skipið sem fengið hefur heimild til að hefja loðnuveiðar við Ísland í ár, að því er segir á vef norska síldarsamlagsins. Þar kemur einnig fram að reglur hafi verið rýmkaðar þannig að nú megi 30 norsk loðnuskip vera í íslensku lögsögunni samtímis en á síðustu vertíð var hámarksfjöldinn 25 skip.

Norðmenn mega veiða 40.114 tonn af íslensku loðnunni í ár. Norska síldarsamlagið vonast til þess að fleiri bátar taki stefnuna til Íslands á næstu dögum.

Mikill áhugi er á loðnunni hjá kaupendum í Noregi. Verðið mun ráðast af stærð loðnunnar og hrognafyllingu. Á vertíðinni í fyrra veiddu norsk skip 58 þúsund tonn af loðnu við Ísland og meðalverðið var 4,41 norsk króna á kíló fyrir loðnu til manneldisvinnslu og 3,10 krónur á kíló fyrir loðnu til fiskimjölsframleiðslu. Vonast er til að vertíðin í ár verði jafngóð, bæði fyrir fiskimenn og kaupendur, segir ennfremur á vef norska síldarsamlagsins.