Stefnir ÍS landaði fyrsta markríl sumarsins, 40 tonnum, á Flateyri í gær og fer aflinn til vinnslu í fiskvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar á eyrinni á Ísafirði (Íshúsinu).
Skip HG þurfa að sækja makrílinn langt og var Stefnir á veiðum suður undir Snæfellsnesi. Togveiðar á makríl eru ekki leyfðar á Vestfjarðamiðum þar sem Hafrannsóknastofnun telur að það skaði mikilvæg hrygningarsvæði. Makríll þarf að komast fljótt í frystingu áður en hann fer að skemmast og því munar um margra tíma stím á miðin.
„Við höfum reynt í nokkur ár að fá að prófa að veiða hér fyrir utan en Hafrannsóknastofnun hefur ekki fallist á það,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG, í samtali við fréttavefinn Bæjarins besta,
www.bb.is.
Ástæða þess að Stefnir landar á Flateyri er til að spara tíma og koma makrílnum fyrr í vinnslu. Unnið er á sólarhringsvöktum. Júlíus Geirmundsson ÍS fer á makrílfrystingu á morgun og ísfisktogarinn Páll Pálsson ÍS fer einnig á makríl. Einar Valur segir að hagkvæmara væri að sækja makrílinn á færri skipum en ekki er heimilt að færa til aflaheimildir í makríl milli skipa fyrirtækisins.