Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK er að landa á Grundarfirði í dag. Er það fyrsta löndun Vísisskips að afloknu sumarstoppi hjá fyrirtækinu. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri er sáttur við að hefja veiðar á ný eftir gott frí.
„Hér um borð eru menn bara virkilega hressir eftir gott stopp og ánægðir með að vera komnir í rútínuna á ný,“ segir Einar Ólafur í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Aflinn er 53 tonn og er hann að mestu karfi. Túrinn var stuttur en haldið var til veiða á þriðjudaginn. Við vorum úti í Nætursölunni og í Víkurálnum. Í Nætursölunni má einungis veiða frá klukkan átta að kvöldi til klukkan átta að morgni og það gekk býsna vel. Veiðin var minni yfir dagtímann þegar þurfti að veiða utan sölunnar. Veðrið var þokkalegt í túrnum en samt dálítill kaldi. Nú verður landað á Grundarfirði og síðan haldið strax til veiða á ný,” sagði Einar Ólafur.