Jón Kjartansson SU og Börkur NK fengu fyrstu loðnu ársins í gærkvöldi úti af Langanesi.
,,Við leituðum í gær og komum að litlum bletti þar sem við fengum 150 tonn í tveimur hölum í gærkvöldi,” sagði Grétar Rögnvarsson skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU frá Eskifirði þegar Fiskifréttir ræddu við hann nú áðan. Auk Jóns Kjartanssonar fékk Börkur NK frá Neskaupstaðar einnig lítilsháttar afla.
,,Við erum að fara að kasta aftur núna. Það eru eitthvað að sjá hérna en ekki mjög mikið og minna en við sáum fyrir jólin við Kolbeinseyjarhrygginn,” sagði Grétar.
Að sögn Grétars er loðnan sem þeir hafa fengið stór og falleg en í henni er svolítil áta. Mörg loðnuskip eru komin á miðin og rannsóknaskipið Árni Friðriksson er á leiðinni þangað.