Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) áætla að mannfjöldi á jörðinni verði kominn í 9,7 milljarða árið 2050 sem þýðir að fæðuþörfin eykst mjög frá því sem nú er. Innan við 5% af matvælaframleiðslu heimsins í dag eru fiskur.

Hvernig er hægt að auka fiskframboð í heiminum? Sjávarútvegsráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, svaraði því á ráðstefnu SÞ í Madrid á Spáni.

Í fyrsta lagi felst lausnin í betri fiskveiðistjórnun, m.a. baráttunni gegn ólöglegum veiðum. Hún sagði að ólöglegar veiðar væru ekki aðeins ógn við sjálfbæra nýtingu fiskistofna og við umhverfið, heldur grundvöllur annarrar glæpastarfsemi svo skattasvindls, mansals og spillingar.

Í öðru lagi felst svarið í auknu fiskeldi.

Og í þriðja lagi er lausnin fólgin í því að stemma stigu við sóun á mat, en næstum þriðjungur matvæla í heiminum er talinn fara til spillis.

Fram kom að um 8% af öllum afla í heiminum sé kastað og að brottkastið eigi sér einkum stað í iðnaðarlöndunum svokölluðu.