Fiskveiðar og fiskvinnsla er okkar eina atvinnugrein og augljóst er, að ef stjórnvöld setja útgerðirnar okkar á hausinn, þá er búsetu í Grímsey lokið, segir í bréfi sveitastjórnar Grímseyjarhrepps til sjávarútvegsráðherra þar sem fyrirhugaðri fyrningarleið stjórnvalda á veiðiheimildum er harðlega mótmælt.
Bréfið fer hér á eftir í heild
„Hr. Sjávarútvegsráðherra Steingrímur J. Sigfússon
Sveitarstjórn Grímseyjarhrepps mótmælir harðlega fyrirhugaðri fyrningarleið stjórnvalda á veiðiheimildum.
Þetta er sú alversta hugmynd sem komið hefur fram í sjávarútvegsstefnu okkar Íslendinga.
Útgerðirnar sem nú starfa hér hafa keypt stærsta hluta sinna veiðiheimilda. Ef þær hefðu ekki farið þá leið, væri það borðleggjandi að ekki væri lengur byggð í Grímsey. Einungis var farið eftir lögum stjórnvalda og finnst okkur þessi fyrningarleið á veiðiheimildum vera sem hnífsstunga í bakið.
Fiskveiðar og –vinnsla er okkar eina atvinnugrein og augljóst er, að ef stjórnvöld setja útgerðirnar okkar á hausinn, þá er búsetu í Grímsey lokið.
Sveitarstjórn Grímseyjarhrepps, Garðar Ólason, oddviti, Alfreð Garðarsson og Gunnar Hannesson „
Því má bæta við að fleiri sveitar- og bæjarstjórnir hafa ályktað gegn fyrningarleiðinni og má þar nefna bæjarstjórn Grindavíkur og bæjarstjórn Snæfellsbæjar.