Stykkishólmsbær, írska fyrirtækið Marigot Ltd. sem á Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal, og Matís ohf. hafa undirritað samkomulag sem hefur að markmiði að samþætta samstarf milli þessara aðila í tengslum við nýtt verkefni sem nú er í undirbúningi. Verkefnið lýtur að aukinni virðissköpun með frekari nýtingu stórþörunga við Breiðafjörð í nýju iðnfyrirtæki, Deltagen Iceland ehf., sem áætlar að reisa verksmiðju í Stykkishólmi. Gangi þær áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016.

Marigot hefur keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf. sem var alfarið í eigu Matís og tveggja lykilstjórnenda þar. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara.

Gangi allar áætlanir eftir mun Deltagen Iceland reisa og reka nýja verksmiðju í Stykkishólmi þar sem unnir verða hágæða þörungakjarnar til útflutnings, ekki síst á grundvelli nýsköpunar og víðtækrar þekkingar vísindamanna Matís.

Nánar má lesa um þetta á vef Matís hér .