Samherji hf. og dótturfélög á Íslandi greiddu samtals rúmlega 4.143 milljónir króna til ríkisins vegna síðasta starfsárs. Hæsta greiðslan í formi tekjuskatts nam rúmum 2.649 milljónum króna. Aðrar greiðslur s.s. tryggingagjald og veiðigjald námu samtals 1.494 milljónum króna.

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda lögaðila vegna tekjuársins 2014 og birt lista yfir hæstu gjaldendur. Þar kemur fram að Samherji hf. er tíundi hæsti greiðandinn og greiddi 2.659 milljónir króna í skatt í fyrra. Inn í þá upphæð er ekki tekið tryggingagjald og önnur gjöld sem félög í eigu Samherja hf. eins og Samherji Ísland ehf., Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og fleiri félög greiða beint til ríkisins. Þetta kemur fram á vef Samherja.

Þegar álagðar greiðslur þessara fyrirtækja eru teknar saman nemur upphæðin samtals 4.143 milljónum króna. Eru þá talin með veiðigjöldin sem félögin greiða til ríkisins en þau eru utan samtölu ríkisskattstjóra þar sem álagning þeirra er á hendi Fiskistofu. Samtals greiddu fyrirtækin 904 milljónir króna í veiðigjöld á síðasta ári.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir skattgreiðslur félaga Samherja vegna gjaldaársins 2014:

Samherji hf., Samherji Ísland ehf., ÚA ehf., Íslandsbleikja ehf., Ice Fresh Seafood ehf. og fleiri félög.

Tekjuskattur 2.649 millj.

Tryggingagjald 590 millj.

Samtals veiðigjald 904 millj.

Samtals greiðslur til ríkisins 4.143   millj.