„Ég er orðinn ánægður núna,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar í Grindavík, nú er Almannavarnir hafa fallist á að hleypa fulltrúum fyrirtækja inn í bæinn eftir að hafa ákveðið fyrr í morgun að öll viðvera í bænum væri bönnuð.

Gunnar segist reiðubúinn að vinna með þeim skilyrðum sem náttúruöflin skapi en kveður erfiðara að laga sig að breytilegum vinnureglum Almannavarna. Ákvörðun Almannavarna um að loka Grindavík í dag hefði getað sett mjög mikið strik í reikninginn í starfsemi fyrirtækisins.

Minni hætta en á föstudaginn

Gunnar segir að menn hafi í raun talið sig í minni hættu í Grindavík í dag heldur en á föstudag þegar kvikuhólfið undir Svartsengi var að fyllast og von á gosi hvenær sem væri.

„Þeir voru búnir að lofa okkur að við fengjum að fara inn um leið og það væri búið að losa úr þessum kötlum en nú er kominn allt annar tónn sem kemur sér mjög illa fyrir okkur,“ segir Gunnar sem kveður fulltrúa fyrirtækjanna í Grindavík hafa rætt við Almannavarnir í morgun um að losa um bannið.

Þrjá færar leiðir

Að sögn Gunnars eru í augnablikinu þrjár leiðir færar inn og út úr Grindavík, auk Nesvegar og Suðurstrandarvegar sé hægt að fara um höfnina. Tvö skip Þorbjarnar séu til taks og að það myndi aðeins taka um klukkustund að ná í þann fisk sem verið sé að vinna og sem fyrirtækið vilji nú flytja annað.

„Mér líst allt í lagi á það að lifa með þessum jarðhræringum en mér líst ekki á það að vinna eftir þeim reglum að það sé eitt í dag og annað á morgun,“ segir Gunnar en undirstrikar að hann sé ánægður með þá lausn sem nú sé fengin á vanda dagsins.