Enn er stefnt að því að stofna Landssamband grásleppuútgerða. Ætlunin er að kalla saman fund á haustdögum, að því er Stefán Guðmundsson sjómaður á Húsavík segir.

„Ég held að menn séu bara að láta sumarið líða. Allir önnum kafnir. Svo taka menn upp þráðinn í haust,“ segir Stefán Guðmundsson, smábátasjómaður á Húsavík.

„Það hefur nú legið fyrir og er algjörlega á plani. Það er búið að fara í töluverða undirbúningsvinnu fyrir þetta, en menn hafa bara verið að klára sínar grásleppuvertíðar. “Einhverjir hafa farið á strandveiðar, aðrir í ferðaþjónustu og svo þurfa allir sumarfrí að einhverju marki“

Síðasta grásleppuvertíð var nokkuð óvenjuleg að COVID hafði meðal annars þau áhrif að veiðin var góð en verðið lágt.

„Ofan á það bættist svo óvænt útspil Grænlendinga með óseldar tunnur inná markaðinn skömmu fyrir upphaf okkar vertíðar. Flutningatregða og sölutregða á mörkuðum vegna heimsfaraldurs os.frv.

Skrýtnir tímar

Stefán er spurður hvort mönnum lítist eitthvað á framhaldið.

„Þetta er auðvitað skrýtnir tímar, ég held að það sé óhætt að segja það, en markaðurinn leitar nú alltaf jafnvægis. Ég held að menn séu þokkalega brattir þannig lagað. Aðalmálið er þessi ófyrirsjáanleiki. Markaðir allir, hvort sem það er í grásleppu eða öðru, þeir vilja eins mikinn fyrirsjáanleika og hægt er. Það er búin að vera þróunin undanfarna áratugi og menn geta ekkert undanskilið grásleppu frá þessari þróun.“

Stefán segir að vöruþróun og markaðsvinna verði lítið spennandi „þegar ófyrirsjáanleikinn hangir yfir eins og skuggi. Það sér hver heilvita maður og auðvelt að sjá hversu magnaður árangur hefur náðst í öðrum tegundum sem lúta aflamarksstýringu og menn vita uppá kíló með margra mánaða fyrirvara hvað mun berast að landi og hvernig má best ráðstafa þeim afurðum með löngum fyrirvara. Þar hefur átt sér stað alvöru vöruþróun og markaðsstarf, hvar aukaafurðir eru nýttar alla leið. Allt í nafni fyrirsjáanleika.“

Sýndarmennska

Frumvarp um kvótasetningu grásleppuveiða dagaði uppi á þingi í vor, en almennt höfðu grásleppusjómenn gert sér vonir um að það yrði að veruleika enda þótt aðrir smábátasjómenn hafi að meirihluta virst andvígir.

„Það er grátbroslegt að þetta fólk sem vann gegn frumvarpinu, það vill svo allan heimsins fyrirsjáanleika í eigin lífi og eigin störfum, með laun og vinnutíma og fleira,“ segir Stefán.

Hann er ekkert að skafa utan af því: „Vonandi er það fólk sem vann gegn þessu farið að sjá ljósið. Þetta er bara einhver sýndarmennska og eigin hagsmunapólitík með afar takmarkaða framtíðarsýn – það þurfum við ekki á þessum síðustu og verstu tímum grásleppuafurða. Þess utan er rétt að árétta það fyrir þá ágætu strandveiðiforkólfa sem hafa unnið gegn okkar hagsmunum eru allir að vinna í aflamarksstýringu eða kvótakerfi, með einum eða öðrum hætti – svo einfalt er það þegar menn sjá ekki flísina fyrir bjálkanum,” segir Stefán, og kímir við.