Guðmundur Jón Hafsteinsson hefur stundað sjómennsku frá Berlevåg í Norður-Noregi undanfarið eitt ár og hálft ár og lætur vel af sér. Róið er frá Berlevåg allt árið nema þegar farið er í að sækja 20 tonna grálúðukvóta og er þá róið frá Tromsö. Guðmundur fluttist til Noregs í janúar 2017 þegar útgerðarfélagið West Atlantic AS í Tromsø í Noregi fékk afhentan nýjan Cleopatra 36B beitningavélarbát frá Trefjum í Hafnarfirði.
Báturinn er systurskip Tranöy sem útgerðin fékk afhentan í upphafi árs 2016. Að útgerðinni stendur m.a. Bjarni Sigurðsson, Íslendingur sem verið hefur búsettur í Noregi í áratugi. Báturinn heitir Aksel B. Hann er 18 brúttótonn og sérhannaður fyrir 11 metra veiðikerfið í Noregi.
Áður en Guðmundur fór að utan var hann yfirstýrimaður á Víking AK og leysti einnig af á Faxa RE. Þegar útgerð þeirra lauk ákvað Guðmundur að taka slaginn enda fannst honum atvinnutækifærin til sjós ekki mörg á Íslandi.
Moka upp grálúðu
Guðmundur var staddur í Tromsö þegar Fiskifréttir ræddu við hann. Þar er báturinn gerður út til að ná í 20 tonna grálúðukvóta sem bátar innan þessa kerfis fá úthlutaðan og mega veiða í júní eða ágúst. Þeir á Aksel B taka þennan kvóta í tveimur róðrum í ágústmánuði. Í fyrri róðrinum veiddu þeir 16 tonn á 340-360 faðma dýpi á smokk á svokölluðu Tromsöflaki sem er um 120 mílur úti í hafi. Aflaverðmætið var 470.000 norskar krónur, rúm 6,1 milljón ÍSK.
„Þetta er bara mok. Lúða á hverjum krók og fljótafgreitt. Við fengum þessi 16 tonn í tveimur lögnum.“
Til stóð að klára svo 4 tonnin sem eftir standa og kíkja svo upp á kantinn í þorsk og ýsu. Að því búnu verður haldið á ný til Berlevåg.
„Sjómennskan hér er svipuð því og gerist heima en umbúnaðurinn er allur annar. Fyrsta árið var ég ekki með nema 50 tonna þorskkvóta á Aksel B en náði samt að fiska nálægt 400 tonnum. Ég mátti veiða eins mikið af ýsu og ég vildi og eftir því sem leið á fiskveiðiárið var sett svokölluð prósenturegla á þorskinn. Þá taldist ekki nema 50% af því sem ég landaði af þorski til kvóta. Ég gat fiskað og fiskað þótt ekki væri nema 50 tonna þorskkvóti á bátnum,“ segir Guðmundur.
Góð aflabrögð
Hann segir kerfið í Noregi mun opnara og auðveldara fyrir þá sem vilja koma undir sig fótunum í veiðum. Ólíkt því sem gerist á Íslandi sé hinum dreifðu byggðum í Noregi veittur mikill stuðningur með alls kyns ívilnunum og jafnvel lægri skattaprósentu fyrir þá sem búa í jaðarbyggðum.
„Á móti kemur að maður þarf að sætta sig við langa vetur hérna norður frá. Þeir eru ansi langir og myrkir veturnir hérna í Berlevåg alveg upp við rússnesku landamærin.“
Berlevåg er lítill, 800 manna bær sem byggir allt sitt á sjávarútvegi. Þaðan stundar Guðmundur línuveiðar allt árið á Aksel B. Fjórir eru í áhöfn, allt Íslendingar. Línubeitingarvél er um borð og veitt er með 18.500 krókum.
„Aflabrögðin hér eru mjög góð. Oftar en ekki næ ég að fylla í öll kör í einni lögn og það eru 12-14 tonn. Það er reyndar mjög algengt. Síðastliðinn vetur réri ég oft með eina og hálfa lögn og var um það bil 13 tíma að draga lögnina. Oftast lauk þessum róðrum með öll kör full,“ segir Guðmundur.
Umtalsvert meiri tekjumöguleikar
Fiskurinn er seldur beint í vinnslurnar og oftast er búið að semja um fiskverðið áður en haldið er til veiða. Hringt er í þrjár til fjórar vinnslur á svæðinu og kannað hvað þær eru tilbúnar að greiða fyrir fiskinn.
„Ég hef að mestu haldið tryggð við eina vinnslu. Hún hefur borgað mjög vel og ef maður ber upp á þær að aðrar vinnslur greiði hærra fiskverð þá jafna þær það. Verðið er því alltaf í mjög góðu lagi. Það eru fjórar vinnslur hérna í Berlevåg og mikil líf hérna í höfninni. Vinnslan er svipuð og á Íslandi. Það kannski flakað og sett í frauðplastkassa og selt ferkst á markað innanlands og í Suður-Evrópu.“
Guðmundur leggur mikla áherslu á góða kælingu og meðferð aflans. Fiskurinn fari beint úr blóðgun í kælingu, 0,6 gráðu kaldan sjó sem nái nánast öllu blóði úr holdinu. Síðan fer hann í ísvatn ofan í lest. „Við sjáum oft að hérna er verið að landa fiski sem manni sýnist vera í engum ís. En þetta er misjafnt eftir skipstjórum og áhöfnum. En ég legg áherslu á að vera með góðan fisk enda fæ ég eins góð verð og hægt er.“
Guðmundur segir að tekjumöguleikar sjómanna séu umtalsvert meiri í Noregi en á Íslandi, því sé ekki saman að jafna. „Ástæðan er lágt fiskverð á Íslandi og skattar og álögur miklar. Ég hef heyrt af sjómönnum heima sem líta ekki upp frá vinnunni en bera nánast ekkert úr býtum. Fyrirkomulagið hjá mér er þannig að ég vinn í þrjár til fjórar vikur og tek mér síðan frí næstu þrjár til fjórar vikur. Í raun vinn ég ekki nema hálft árið. Samt hef ég það ágætt.“