Á næstu áratugum þarf að fylla upp í 120 milljóna tonna gap til að framboð af sjávarafurðum verði nægilegt um miðja þessa öld, að sögn leiðarahöfundar á vefnum seafoodsource.com.

Í leiðaranum kemur fram að niðurstöður fjölda rannsókna sýni að til að tryggja fólki góða heilsu þurfi fiskneysla á manna að vera um 280 grömm á viku að lágmarki.

Því sé einnig spáð að fólksfjöldinn í heiminum nái 9 milljörðum um 2050. Einfaldur reikningur sýni að þá þurfi árlegt framboð af sjávarafurðum að vera í kringum 260 milljónir tonna ef fullnægja ætti lágmarksþörf.

Bent er á að veiðar á villtum fiski hafi verið nokkuð stöðugar frá miðjum níunda áratug síðustu aldar, eða í kringum 85 milljónir tonna. Bjartsýnustu spár segi að lítil von sé til þess að auka þessar veiðar svo nokkru nemi. Fiskeldi hafi vaxið og mætt aukinni eftirspurn eftir fiski og hafi náð 52 milljónum tonna árið 2008.

Jafnframt segir að brúa þurfi bil sem nemur um 120 milljónum tonna fram að árinu 2050. Því þurfi fiskeldismenn að spýta í lófana til að anna eftirspurn eftir sjávarafurðum í framtíðinni.