Í haust hefur verið fram haldið rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar á árstíðabundinni útbreiðslu og fari skíðishvala við Ísland. Rannsóknir þessar, sem byggjast á merkingum með gervitunglasendum, hafa nú þegar varpað nýju ljósi á ýmsa þætti er tengjast viðveru og fartíma hvala við landið. Þá hafa rannsóknirnar gefið fyrstu vísbendingar um aðsetur hrefnu að vetrarlagi.
Um hádegisbil þann 4. nóvember 2011 var merktur hnúfubakur norður af Arnarnesnöfum í Eyjafirði. Hvalurinn var þá í hópi 10-15 hnúfubaka í Eyjafirði. Engin merki bárust frá hvalnum fyrr en að kvöldi merkingardags og var dýrið þá statt nálæg mynni Eyjafjarðar. Hnúfubakurinn hélt sig á þeim slóðum allan næsta dag en að morgni 6. nóvember synti hvalurinn mjög ákveðið til norðvesturs og hafði að kvöldi þess dags lagt að baki rúmlega 70 sjómílur (130 km). Þann 7. nóvember synti hvalurinn rólega til norðvesturs og um hádegi 8. nóvember var hann staddur grunnt úti fyrir Hornströndum.
Ferðir þessa hnúfubaks hingað til líkjast mjög ferðum hvals sem merktur var 21. október 2009 . Hægt verður að fylgjast áfram með ferðum hvalsins HÉR.