Á heimasíðu Síldarvinnslunnar var á þriðjudaginn rætt við skipstjóra skipanna tveggja og spurt um aflabrögð.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir stöðuna einfalda. Nú sé bullandi vertíð og hörkufiskerí.

„Við höfum að undanförnu landað fullfermi upp í þrisvar í viku. Nú erum við að landa og aflinn er mest þorskur og ýsa. Það er mjög mikið af ýsu og það virðist vera gott ástand á henni. Við erum nokkuð vel settir með ýsukvóta en sumir, sem ekki hafa jafn mikinn kvóta, lenda í vandræðum. Að undanförnu höfum við mest verið að fiska í Háfadýpinu og á Landsuðurshrauni og við getum ekki kvartað undan neinu nema veðrinu. Það mætti vera heldur betra veður. Það er alltof mikið um brælur,“ segir Birgir Þór.

Þegar rætt var við Jón Valgeirsson var Bergey á landleið með fullfermi.

„Við löndum núna strax á eftir Vestmannaey. Aflinn er mest þorskur og ýsa. Eins og aðrir kvörtum við undan því að ýsan er alls staðar. Það er alltof mikið af henni miðað við kvótann. Við höfum að undanförnu fiskað í næsta nágrenni við Eyjar og það hefur gengið vel. Það liggur býsna vel á okkur og menn eru ánægðir með vertíðina hingað til. Þetta lítur bara ágætlega út,“ segir Jón.

Í umræddum túr Bergeyjar var með í för Óskar P. Friðriksson, ljósmyndari í Vestmannaeyjum, en fullfermi var náð á aðeins 40 klukkustundum – höfn í höfn. Hér að neðan eru myndir sem teknar voru í túrnum.

  • Landað úr Bergey VE í Vestmannaeyjum eftir stuttan fullfermistúr. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

  • Jón Valgeirsson í brúnni við komuna til Eyja með fullt skip. Mynd/Óskar P. Friðriksson

  • Bullandi aðgerð í góðfiski. Mynd Óskar P. Friðriksson