Marvin Ingi Einarsson iðnaðarverkfræðingur vann að rannsókn sem snerist um að skoða rekstrargrundvöll fiskimjöls- og lýsisvinnslu fyrir nýjan frystitogara HB Granda og meta áhrif aukinnar vinnslu á pressuvökva, lýsi og soðvökva. Niðurstöður liggja fyrir og munu nýtast HB Granda við ákvarðanatöku.

Togarinn sem um ræðir er í smíðum á Spáni en búið var að gera aflaáætlun fyrir skipið.

„Rannsóknin var einn þáttur í því að finna hagkvæmustu leiðina að fullnýtingu hráefnis á frystitogurum,“ segir Marvin Ingi um lokaverkefni sitt til MS-prófs sem unnið var veturinn 2016-2017. Fjallað er um þetta í Tímariti Háskóla Íslands.

Stofnkostnaður greindur

Árið 2016 var Marvin sumarstarfsmaður hjá Matís þar sem hann vann að Evrópuverkefni sem ber heitið DiscardLess og snýr að aukinni nýtingu meðafla og aukahráefnis um borð í evrópska flotanum. Hann segir það hafa verið kveikjuna að lokaverkefninu og að það komi til með að nýtast honum í áframhaldandi vinnu þar.

„Markmið verkefnisins var að reikna stofnkostnað á þremur ólíkum vinnslum og skoða hver leyfilegur stofnkostnaðar er á fjárfestingunum með tilliti til uppgreiðslutíma. Þessar niðurstöður gera HB Granda kleift að bera saman verð á sams konar vinnslum við niðurstöðurnar og fá þannig mat á lengd uppgreiðslutíma og hvenær núllpunkti sé náð. Greina þurfti allar tekjur af vinnslunum, efnainnihald alls aukahráefnis og sem fellur til við vinnsluna um borð, orkuþörf og breytilegan og fastan kostnað,“ segir hann.