Grænlenska loðnuskipið Qavak er nú í sinni fjórðu veiðiferð á miðunum út af Snæfellsjökli. Áhöfnin, 14 manns, er að hluta skipuð íslendingum. Þar með er skipstjórinn, Gylfi Viðar Guðmundsson, en hann er einn af eigendum Hugins VE 55 og alla jafnan skipstjóri á því skipi á móti Guðmundi Hugin Guðmundssyni. Qavak er gert út af grænlenska útgerðar- félaginu Arctic Prime Fisheries aps sem Brim hf er hluthafi í.
Að sögn Gylfa hefur Polar Amaroq yfirleitt séð um að veiða grænlenska loðnukvótann eða megnið af honum en fyrir skömmu var gefinn út 6.600 tonna kvóti fyrir Qavak.
,,Það var því drifið í að gera skipið klárt fyrir loðnuveiðarnar og það varð úr að ég tók að mér skipstjórn og er hér ásamt tveimur öðrum úr áhöfn Hugins. Þetta er ágætis skip, smíðað árið 1999 og hét áður Ventla og var gert út frá Noregi. Burðargetan er um 1600 tonn,“ segir Gylfi en hann hélt veiðarfæralaus frá Reykjavík með það að markmiði að taka loðnunótina um borð á Norðfirði. Það atvikaðist þó þannig að áhöfnin fékk að dæla afla úr nótinni hjá Hugin VE og fleiri skipum út af Þorlákshöfn og þar fékkst fullfermi eða um 1.500 tonn.
,,Við lönduðum þeim afla á Neskaupstað og tókum þar 440 metra langa og 110 metra djúpa nót um borð.“
Sjá nánar á vef Hampiðjunnar