Þorbjörn hf. í Grindavík hefur selt frystitogarann Hrafn GK 111 til Austur-Rússlands. Skipið hefur fengið nafnið NERA. Nýir eigendur tóku við skipinu í gær eftir reynslusiglingu á mánudaginn og mun Hrafn sigla áleiðis til Vladivostok 21. maí nk., að því er segir á vef Guðmundar Gauta Sveinssonar .
Eiríkur Óli Dagbjartsson útgerðastjóri hjá Þorbirni hf. staðfesti þetta í samtali við Fiskifréttir. Hann sagði að Hrafn GK 111 hefði verið í notkun hjá útgerðinni fram að jólum í fyrra.
Skipið á 12.000 sjómílna siglingu fyrir höndum í gegn Miðjarðarhaf, Indlandshaf og áfram austur á bóginn til heimahafnar í Vladivostok. Þar verður skipið notað til botnfiskveiða eftir því sem næst verður komist.