Þrír frystitogarar eru komnir á makrílveiðar og voru í gær í Jökuldýpinu vestur af landinu. Þetta eru Venus HF, Þerney RE og Gnúpur GK. Veiðarnar ganga vel en lítil frystigeta togaranna stendur vinnslunni fyrir þrifum.

Uppsjávarskipin henta betur í þennan veiðiskap því þau eru með kælitanka til þess að varðveita hráefnið þar til það hefur verið flutt í land til vinnslu og sum eru með frystibúnað um borð sem er mun afkastameiri en frystitæki hefðbundinna frystitogara.

Alls var í gær búið að tilkynna löndun á 43.000 tonnum af makríl það sem af er vertíðinni, samkvæmt skrá Fiskistofu, en heildarkvótinn er 130.000 tonn.

Nánar um gang makrílvertíðarinnar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.