Tvö stjórnarfrumvörp tengd sjávarútvegi voru lögð fram á Alþingi í gær. Þar eru komin annars vegar frumvarp um breytt fyrirkomulag byggðapottanna svonefndu og hins vegar frumvarp um kvótasetningu grásleppu, sæbjúga og sandkola.
Í greinargerð með byggðapottafrumvarpinu segir að með fyrirhugaðri lagasetningu sé „leitast við að skapa skýrari lagalegan grundvöll fyrir meðferð og ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur til ráðstöfunar árlega til atvinnu- og byggðaráðstafana og skilgreina betur tilgang og markmið úthlutunarinnar. Einnig að betur verði tryggt að nýting umræddra aflaheimilda stuðli að byggðafestu og nýliðun í greininni og jafnframt að verðmæti þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur forræði yfir verði sem mest.“
Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps sem skipaður var í apríl 2019 og skilaði skýrslu til ráðherra í febrúar 2020.
Hvað kvótasetningu grásleppu varðar segir í greinargerð með því frumvarpi að á undanförnum árum hafi veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar.“ Þá hafi á síðustu grásleppuvertíð ókostir núverandi veiðistjórnar grásleppu komið vel í ljós. Stöðva þurfti veiðarnar fyrr en ætlað var og það hafi komið „misjafnlega niður á þeim sem stunda veiðarnar þar sem mismunandi var hvenær þeir hófu veiðar.“
Ennfremur segir í greinargerðinni að til að „tryggja að hlutdeild í grásleppu verði dreifð er lagt er til að sett verði 2% hámarksaflahlutdeild í grásleppu.“
Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að ráðherra verði heimilt að undanskilja grásleppu frá veiðiskyldu „ef aðstæður á markaði leiða til þess að afli vertíðar verður óvenjulítill.“