Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra gerir ráð fyrir að nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða verði tilbúið innan tveggja vikna. Hann kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í gær.

Steingrímur segir að unnið sé að fjórum frumvörpum um fiskveiðar og sjávarútvegsmál. Tvö séu komin til þingflokka, það þriðja sé í umsagnarferli og heildarfrumvarpið um stjórn fiskveiða sé um það bil að verða tilbúið.

Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar segir ennfremur að ákvæði laganna um tengsl sjávarútvegsfyrirtækja hefði þótt heldur máttlítið. Til að mynda teldust fyrirtæki ekki tengd þótt þau ættu hvert í öðru og sama fólkið stýrði þar og stjórnaði. Atvinnuvegaráðherra hefur sagt að þetta ákvæði þurfi að skerpa til þess að hindra að kvótinn safnist á fárra hendur.