„Við erum að vinna í dag um tíu þúsund tonn af þorski,“ segir Sighvatur Bjarnason, framkvæmdastjóri og eigandi fiskvinnslufyrirtækisins Atlas Premium Seafood í Lettlandi.

Sighvatur segir verksmiðjuna í Lettlandi eiga sér sjö ára sögu. Fyrirtækið var stofnað af Jóni Þór Hjaltasyni og Einari S. Einarssyni árið 2016. Sighvatur sem hefur verið framkvæmdastjóri þess frá haustinu 2016 keypti hlut í því um mitt ár 2020 og á það nú með félaginu Hofseth AS í Noregi.

„Við höfum vaxið úr engu upp í 40 til 45 milljóna evru veltu í fyrra. Það verður eitthvað meira núna á þessu ári,“ svarar Sighvatur inntur eftir umsvifum Atlas Premium Seafood. Í íslenskum krónum talið var veltan í fyrra þannig á bilinu 6 til 6,7 milljarðar króna.

Að sögn Sighvats einbeitir fyrirtækið sér að smásölu. „Við pökkum öllu í smásölupakkningar. Þetta fer inn á keðjur í Bandaríkjunum og Evrópu reyndar líka,“ segir hann.

Þótt að um mikið ferðalag virðist vera að ræða á þorskinum bendir Sighvatur á það sé samt minna heldur en ef þorskurinn færi til vinnslu í Kína og þaðan til Bandaríkjanna.

„Kína er lang stærsti framleiðandi á þorski í heiminum. Þó það sé að minnka núna hafa þeir verið stærstir og hafa séð um þennan bandaríska markað,“ segir Sighvatur.

Stöðugur brottflutningur Letta úr landi

Verksmiðjan er í Olaine sem er tíu þúsund manna bær utan við höfuðborgina Riga. Sighvatur segir um tvö hundruð manns starfa hjá fyrirtækinu. Sá mannskapur er þó alls ekki allur lettneskur.

„Það er nú þannig í Lettlandi að þú færð ekki fólk í vinnu, það er allt saman farið. Það er í Noregi, Bretlandi eða Þýskalandi eða guð má vita hvar annars staðar en hér. Þess vegna erum við að flytja inn starfsfólk eins og allir aðrir,“ útskýrir Sighvatur.

Starfsemi Atlas Premium er í þessari byggingu. Mynd/Aðsend
Starfsemi Atlas Premium er í þessari byggingu. Mynd/Aðsend

Mikið hefur breyst í Lettlandi frá því fyrir sjö árum. „Lettum fækkar stöðugt,“ segir Sighvatur. „Ég held við séum orðin 1,8 milljón en vorum 2,5 milljónir þegar landið fékk sjálfstæði fyrir þrjátíu árum. Og ég held að Lettar hafi verið 2,1 milljón fyrir sjö árum.“

Það er helst unga fólkið sem yfirgefur Lettland. „Því miður er það þannig,“ segir Sighvatur. „Það er mikið verkefni hjá okkur sem erum að reka fyrirtæki hér að reyna að skapa umhverfi svo fólk vilji vera hér og búa hérna áfram. Til þess þurfum við að skapa mannsæmandi laun og áhugaverð störf.“

Frá Íslendingum upp í Egypta

Að því er Sighvatur segir eru lögin í Lettlandi þannig að borga þarf erlendu starfsfólki hærri laun en Lettum sjálfum. Það sé til þess að vernda lettnesk störf. „Gallinn er sá að þú færð ekki Letta í störfin,“ segir hann þó.

Erlenda starfsfólkið segir Sighvatur koma frá ýmsum löndum, til dæmis frá Aserbadjan, Moldavíu, Víetnam og Kirgistan. Atlas Premium er þannig sannkallað fjölmenningarfyrirtæki.

„Þetta er allt prýðis gott fólk sem vinnur mjög vel. Við erum með allt frá Íslendingum og upp í Egypta,“ segir Sighvatur á léttum nótum. „En við erum með kjarna af fólki sem eru Lettar af rússneskum uppruna því bærinn er gamall rússneskur bær.“

Sighvatur segir fyrirtækið útvega því starfsfólki sem kemur utan frá húsnæði í móteli sem tekið hafi verið á leigu og að því sé ekið til og frá vinnu. „Þau vinna hér og fara síðan til síns heima og svo koma þau aftur eftir kannski tvær, þrjár vikur,“ segir hann.

Ný verksmiðja á teikniborðinu en ákvörðun bíður

„Á þessum sjö árum höfum við hægt og bítandi fengið stærri samninga við sömu keðjurnar sem við erum búin að vinna með í sex ár. Það er einfaldlega byggt á góðum gæðum, stöðugum afhendingum og slíku. Þú byggir þetta ekkert upp öðru vísi,“ segir Sighvatur sem kveður Atlas Premium enn í vexti.

Vinnslusalurn hjá Atlas Premium. Mynd/Aðsend
Vinnslusalurn hjá Atlas Premium. Mynd/Aðsend

„Við erum að hanna nýja verksmiðju en viljum sjá hvernig fer í heiminum áður en við tökum ákvörðun um það mál,“ segir Sighvatur og vísar þar vitanlega til óvissu í heimsmálunum.

Verksmiðjan er afar tæknivædd og Sighvatur horfir enn lengra fram á veg í þeim efnum.

„Við erum með tvær Flexicut-línur og allt sem því fylgir. Við erum búin að panta þessa nýju Unovél frá Vélfagi. Við erum fyrir með vél frá Vélfagi sem hefur gefist afar vel og ætlum í þessa nýju vél sem við erum að byrja að þróa með þeim fyrir landvinnslur,“ segir Sighvatur. Þetta verði fullkomnasta flökunarvél í heiminum.

„Ef hún virkar, því við vitum ekki enn hvort hún virkar, þá breytir það leiknum fyrir landvinnsluna í heiminum. Hún eykur nýtinguna og gerir framleiðsluna á hliðarafurðum langtum auðveldari en hún er í dag. Það verður hægt að fækka svo mikið fólki í kring um vinnsluna sem er alltaf markmiðið í þessu öllu saman,“ segir Sighvatur Bjarnason.