Þorskurinn hefur fram að þessu verið burðarásinn í færeyskum sjávarútvegi en með auknum makrílkvóta til handa Færeyingum kann þetta að breytast.
Eigendur útgerðarfélagsins Thor í Hósvík í Færeyjum, þeir Hans Andreas og Gunnbjörn Joensen, benda á í viðtali við blaðið Dimmalætting að Færeyingar hafi fiskað þorsk fyrir 220 milljónir færeyskra króna á ári, jafngildi 4,4 milljarða íslenskra króna.
Færeyingum var ætlaður 20.000 tonna makrílkvóti á þessu ári en sættu sig ekki við sinn hlut og settu sér einhliða 85.000 tonna makrílkvóta sem kunnugt er. Útgerðarmennirnir benda á að ef allur þessi makrílafli hefði farið í manneldisvinnslu væri virði hans 617 milljónir danskra króna eða sem svarar 12,3 milljörðum íslenskum. Og ef færeyski sjávarútvegsráðherrann hefði fylgt upphaflegum ásetningi sínum og leyft veiðar á 150.000 tonnum af makríl í ár hefði verðmætið numið yfir einum milljarði danskra króna, jafnvirði 20 milljarða íslenskra, miðað við sömu reikniaðferð, segja útgerðarmennirnir.
Í ljósi þessara talna er ekki að undra að hart sé tekist á um stjórn makrílveiða. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi.