Í nóvember verða tvö ár frá komu varðskipsins Freyju til Íslands.

Aðspurður um olíunotkun og rekstrarkostnað Freyju segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, hann vera þó nokkuð meiri en á varðskipinu Tý, forvera Freyju.

„En hafa verður í huga að Freyja er margfalt stærra og öflugra skip sem er frábærlega útbúið til að takast á við krefjandi verkefni á hafsvæðinu í kringum okkur. Þá hefur Freyja reynst einstaklega vel í erfiðum veðurskilyrðum, vel fer um áhöfnina og skipið er öruggara en forveri þess,“ segir Ásgeir.

Á hagkvæmri siglingu var eyðsla Týs að sögn Ásgeirs um 22 lítrar á sjómílu á móti 70 lítrum á hverja sjómílu á varðskipinu Freyju.

„Varðskipið Týr fór með um 350 þúsund lítra af olíu á ári til samanburðar við um 1.000.000 lítra á ári á varðskipinu Freyju,“ segir hann. Munurinn á olíunotkun þessara tveggja skipa er þannig ríflega þrefaldur.

Spara á olíukaupum í Færeyjum

Í febrúar í fyrra gerði Ríkisendurskoðun athugasemdir við kaup Landhelgisgæslunnar á olíu í Færeyjum.

Einar Valsson skipherra á Freyju stýrði aðgerðum við björgun Wilson Skaw. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Einar Valsson skipherra á Freyju stýrði aðgerðum við björgun Wilson Skaw. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Ásgeir segir olíu enn keypta í Færeyjum þegar leið varðskipa liggur á þær slóðir, meðal annars í tengslum við sameiginlegar æfingar Íslendinga, Dana og Færeyinga. Dæmi um það er frá því í október í fyrra þegar 900 þúsund lítrar voru keyptir í Færeyjum á varðskipið Þór eftir að verðsamanburður þar og hér á Íslandi hafði verið gerður.

„Tugum milljóna króna munar að fylla á varðskipin hér heima miðað við erlendis en munurinn er ekki eingöngu fólginn í virðisaukaskatti sem greiddur er á Íslandi heldur einnig í lægra verði á olíunni ytra,“ útskýrir Ásgeir. Munurinn geti auðveldlega verið um það bil 40 milljónir króna ef skipin  eru fyllt af olíu.

Litið til skemmtiferðaskipa

Að því er Ásgeir segir bar kaupin á Freyju á sínum tíma nokkuð brátt að. Útboðsferlið hafi verið skilvirkt og gekk hratt fyrir sig. Ákveðið hafi verið að festa kaup á öflugu skipi sem smíðað var í Suður-Kóreu árið 2010 og hafði verið í þjónustu við olíuiðnaðinn.

„Skipið fékk nafnið Freyja og kom í flota Landhelgisgæslunnar í nóvember 2021 og tók við keflinu af varðskipinu Tý sem reyndist Landhelgisgæslunni vel í tæpa hálfa öld,“ segir Ásgeir. Í útboðsferlinu hafi þótt mikilvægt að hið nýja varðskip væri útbúið til að takast á við áskoranir sem Landhelgisgæslan standi frammi fyrir á hafinu umhverfis Ísland.

„Var þar sérstaklega horft til stærri skipa á borð við skemmtiferðaskip sem sigla á hafsvæðinu umhverfis Ísland og því var lögð rík áhersla á að skipið hefði mikla toggetu,“ segir Ásgeir.

Reyndi strax á styrkinn

Eftir komuna til Íslands var tækni- og öryggisbúnaði komið fyrir í Freyju og skipið útbúið fyrir björgunar-, eftirlits og löggæslustörf. Í lok nóvember hélt það í fyrsta úthaldið.

Dýr á fóðrum en reynslan frábær. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Dýr á fóðrum en reynslan frábær. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Skipið var einungis búið að vera örfáa daga á sjó þegar fyrsta verkefnið kom á borð áhafnarinnar. Þá kom upp bilun í flutningaskipinu Francescu sem var dregið í slipp á Akureyri,“ segir Ásgeir.

Um tveimur vikum síðar strandaði fiskiskipið Masilik við Gerðistanga á Vatnsleysuströnd.

„Þá var Freyja í næsta nágrenni og áhöfn hennar gat verið snögg á staðinn. Þar reyndist dráttargeta skipsins aftur vel. Masilik var dreginn af strandstað og tekinn í tog til Hafnarfjarðar. Í þessu fyrsta úthaldi skipsins reyndi því strax á eiginleika Freyju sem stóðst allar væntingar áhafnarinnar og gott betur,“ heldur Ásgeir áfram.

Að sögn Ásgeirs er Freyja gott vinnuskip. Á hliðum þess séu færanlegir kranar sem hafi komið sér einkar vel í vita- og baujuverkefnum sem og við björgunarstörf.

Mikilvægir vinnukranar

„Þessir kranar reyndust afar mikilvægir þegar flutningaskipið Wilson Skaw strandaði í Húnaflóa í apríl. Freyja dró skipið af strandstað en vegna skemmda sem urðu á skipinu varð að færa farm þess til svo hægt væri að draga það til Akureyrar,“ segir Ásgeir.

Öflugir kranar um borð í Freyju komu í góðar þarfir við björgun Wilson Skaw. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Öflugir kranar um borð í Freyju komu í góðar þarfir við björgun Wilson Skaw. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Freyja hafi lagst utan á Wilson Skaw og kranarnir verið notaðir til að færa farminn en um borð hafi verið um 200 tonn af salti.

„Þessi vinna gekk hratt og örugglega fyrir sig, sérstaklega vegna þessara hreyfanlegu krana á hliðunum,“ segir Ásgeir.

„Reynsla Landhelgisgæslunnar af Freyju á þeim tuttugu mánuðum sem skipið hefur verið í notkun er sérlega góð. Vel fer um áhöfnina um borð og skipið hefur reynst frábærlega.“

Varðskipið Freyja

Freyja. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Freyja. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Mál

» Lengd: 85,80 metrar

» Breidd: 19,90 metrar

» Mesta djúprista: 8,80 metrar

» Brúttótonn: 4.566

Almennt

» Ganghraði: 12 hnútar

» Mesti hraði: 17 hnútar

» Flokkun ísstyrkingar: 1 C » Áhöfn: 18

» Dráttargeta: 210 T

» Slökkvibúnaður: Fifi-2

Léttbátar

» 2x Waterjet engine FRC; 10 manna, 35 hnúta

Vélar

» Bergen Diesel ME

» Aðalvélar 2×6000 kW

Vistarverur

» Káetur: 21

» Svefnpláss fyrir 36