Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jacob Vestergaard, hefur staðfest að ef ekki náist samkomulag um stjórn veiða úr makrílstofninum á fundi strandríkjanna á Íslandi nú í aprílmánuði muni hann setja einhliða makrílkvóta fyrir færeyska lögsögu. Þetta kemur fram í Fiskifréttum í dag og er vísað í sjávarútvegsvefinn Intrafish.

Vestergaard segir að kvótinn í færeysku lögsögunni verði þá ekki minni en þau 130.000 tonn sem Íslendingar hafi gefið út sjálfum sér til handa þetta árið. Strandríkin að Íslandi meðtöldu héldu fund um makrílinn í Noregi í síðasta mánuði án þess að samkomulag næðist. Nýr fundur er boðaður á Íslandi 19. - 20. apríl. Mikið ber í milli sjónarmiða Íslands og annarra ríkja og er ekki búist við að niðurstaða fáist á þessum fundi. Því má gera ráð fyrir að Íslendingar veiði þann 130.000 tonna kvóta sem stjórnvöld hér hafa nú þegar gefið út.

Nánar um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.