Færeyski sjávarútvegsráðherrann hefur gefið út 14.000 tonna makrílkvóta í færeyskri lögsögu með þeim orðum að endanlegur kvóti verði ákveðinn síðar, að því er fram kemur á vef færeysku fiskistofunnar.
Skip, sem beðið hafa eftir þeim möguleika að geta hafið makrílveiðar í lögsögu Færeyja, hafa nú látið úr höfn. Útgefinn kvóti skiptist þannig að meginhluti hans rennur til nótaskipa eða 11.335 tonn. Frystiskipum er úthlutað samtals 1.300 tonnum og öðrum skipum 1.300 tonnum.
Sem kunnugt er hefur ekki náðst samkomulag milli makrílveiðiþjóðanna í NA-Atlantshafi um skiptingu heildarkvótans fyrir þetta ár og því líta Færeyingar svo á að þeir séu frjálsir að því að gefa einhliða út kvóta í eigin lögsögu. Hlutur Færeyinga í heildarkvótanum hefur verið 30.000 tonn en það telja þeir alltof lítið ef tekið sé mið af viðveru makrílstofnsins á Færeyjamiðum.
Færeyski sjávarútvegsráðherrann lýsti því yfir í vetur að ef ekki næðist samkomulag um nýtingu makrílstofnsins og ef Íslendingar settu sér 130.000 tonna kvóta myndu Færeyingar fylgja fordæmi Íslands og gefa út einhliða kvóta sem ekki yrði minni en kvóti Íslands.