Færeyingar hafa ákveðið 85 þúsund tonna makrílkvóta á árinu 2010. Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, heldur þannig fast við þá skoðun sína að Færeyingar eigi rétt á því að veiða 15% af heildarkvóta í makríl.
Frá þessu er skýrt á vef norskra útvegsmanna og þessum fregnum er ekki tekið með fögnuði á þeim bæ. ,,Þetta er mjög óheppilegt og torveldar það að fundin verði lausn á stjórn makrílveiða. Færeyingar þrefalda með þessu sinn hlut,“ segir Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útvegsmanna.
Hann segir ennfremur að ákvörðun Færeyinga kunni að þvinga ESB og Noreg til aðgerða sem til lengri tíma litið stuðli ekki að sjálfbærri nýtingu makrílstofnsins. Noregur og ESB, sem hafi tekið að sér stjórn makrílveiða, geti ekki tekið með í reikninginn veiðar Íslending og Færeyinga. ,,Makríllinn er lykilstofn í okkar veiðum og við megum ekki verðlauna þá sem stunda óábyrgar veiðar með því að minnka eigin kvóta í framtíðinni,“ segir Audun Maråk.