Nofima – rannsóknastofnun norska matvælaiðnaðarins – hefur kynnt mikilvægt skref í áttina til þess að mögulegt sé að ala geldan lax. Með viðamiklum rannsóknum á sebrafiski hefur tekist að skilgreina hvaða gen stýra myndun kynkirtla í fiski. Með því að hindra myndun ákveðinna boðefna (próteina) hefur tekist að framleiða fisk sem ekki myndar kynkirtla og verður þar af leiðandi ekki kynþroska.
Um 2000 tilraunafiskar hafa nú þegar náð 300 grömmum og vaxa og dafna eins og aðrir laxar, að því undanskildu að þeir mynda ekki kynfæri. Núna er verið að fylgjast með fiskinum og vinna að því að þróa skilvirka aðferð sem hægt er að nota á iðnaðarskala. Ef hvortveggja er í lagi eru 3-5 ár þangað til að hægt sé að framleiða geldfisk í miklu magni.
Ekki erfðabreyttur
Í fréttatilkynningu frá Nofima segir að fiskurinn sem um ræðir lítur eins út og hegðar sér rétt eins og frjór lax. Hins vegar mætti hugmyndin sem þessi niðurstaða byggir á mikilli tortryggni þegar hún var upphaflega kynnt, en aðferðin byggir á því að fiskurinn er ekki erfðabreyttur heldur átt við myndun ákveðinna boðefna svo kynkyrtlamyndun er fisknum ómöguleg.
Í þessari uppgötvun liggja góðar fréttir fyrir alla aðila – gagnrýnendur fiskeldis jafnt sem eldismenn. Eitt helsta þrætuepli umhverfisverndarsinna og eldismanna er hættan á erfðablöndun villtra laxastofna við strokulax. Því til viðbótar munu eldismenn njóta þess að vöðvi laxins verður af meiri gæðum, þar sem kynþorski kemur niður á gæðum afurða með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni.
Samstarf
Verkefnið – SalmoSterile - er hluti af verkefnaáætluninni BIOTEK 2021 sem fjármögnuð er af norska rannsóknarráðinu, sem byggir á samstarfi við Hafrannsóknastofnunina þar í landi auk fyrirtækja sem tengjast norsku laxeldi beint og óbeint. Eitt þeirra er AquaGen, stærsti framleiðandi laxahrogna fyrir norska eldisiðnaðinn.
Segja má að markmiði SalmoSterile hafi verið náð – en eftir stendur að þróa aðferðina áfram svo hægt sé að beita henni á iðnaðarskala, en framleidd eru í Noregi 1,2 milljónir tonna af eldislaxi á ári. Í því felst að rannsaka fiskinn sem syndir ófrjór í kerjum vísindamannanna af mikilli nákvæmni.
Átti að gelda þorsk
Þess má geta að rannsóknir á því hvernig ala mætti geldfisk hófust strax árið 2006 – en þá var það þorskur sem horft var til, en á þeim tíma voru uppi háleitar hugmyndir um þorskeldi í Noregi og reyndar hér heima á Íslandi einnig. Þær háleitu hugmyndir skiluðu í raun engu, og eru áætlanir um þorskeldi meira og minna úr sögunni vegna fjölmargra vandamála við eldið. Því var haldið áfram með hugmyndina í tengslum við laxeldi, enda mun vænlegra til árangurs þegar horft er til sölu- og markaðsmála.
Aðferðin er hins vegar sú sama og í raun hægt að beita henni á allan eldisfisk, hver sem tegundin er og hvar hann er alinn.