Kaldbakur EA, systurskip Björgúlfs EA, lá við bryggju í Dalvíkurhöfn. Spölkorn frá var unnið að því að reka niður stálþil fyrir nýjan viðlegukant. Framundan er svo bygging hátæknivæddustu og fullkomnustu bolfiskvinnslu heims á 20 þúsund fermetra landfyllingu við höfnina. Samherjamenn hafa uppi stór áform í bænum.
Samherji starfrækir tvær landvinnslur í Eyjafirði, þ.e.a.s. á Akureyri og á Dalvík. Tilgangurinn er að sá að geta alltaf haldið uppi vinnslu þótt annað húsanna loki tímabundið. Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, telur að hátt í tveir þriðju hlutar alls bolfiskafla Samherja í Eyjafirði sé landað á Dalvík. Aflanum er síðan miðlað á milli húsanna á Dalvík og Akureyri á bílum eftir efnum og ástæðum hverju sinni.
Fjárfesting upp á 3,5 milljarða
Samherji er nýlega búinn að endurbyggja og betrumbæta aðstöðu dótturfélagsins ÚA á Akureyri. Í gegnum tíðina hefur fyrirtækið einnig verið að betrumbæta frystihúsið á Dalvík sem um síðustu aldamót var eitt fullkomnasta frystihús landsins. Undanfari þess voru kaup Samherja á Útgerðarfélagi Dalvíkur og ýmsum öðrum dalvískum útgerðum. Um tíma rak Samherji Söltunarfélag Dalvíkur sem sérhæfði sig í rækjuvinnslu. Fyrirtækið gerir út frá Dalvík togarana Björgvin EA og Björgúlf EA.
Nú er framundan að byggja upp hátæknivæddustu bolfiskvinnslu í heiminum. Samherji undirritaði í maí 2017 lóðaleigusamning við Dalvíkurbyggð um 23.000 fermetra lóð undir nýtt húsnæði landvinnslu félagsins á Dalvík. Áætluð fjárfesting Samherja í húsnæði og búnaði eru um 3.500 milljónir króna.
Fyrir nokkrum vikum var gefið út byggingaleyfi og Samherji hefur boðað að hafist verði handa við framkvæmdirnar nú í vor. Húsið verður um 8 þúsund fermetrar að stærð og verður á eldri uppfyllingu frá 1992 sem er nyrst og austast á hafnarsvæðinu. Gefið hefur verið út að vinnsla geti hafist í húsinu á fyrri hluta næsta árs.
Nýsköpunarsetur?
Núverandi frystihús er á um 5.000 fermetra fleti og er á nokkrum hæðum. Mikið hefur verið byggt við það í gegnum tíðina og er það í góðu ástandi. Nýja húsið verður hins vegar að mestu leyti á einni hæð en skrifstofubygging og starfsmannaaðstaða verður þó á annarri hæð yfir hluta af húsinu.
Margar hugmyndir eru uppi um nýtingu á gamla húsinu. Draumur Bjarna er að þar rísi nýsköpunarsetur í anda Codlands í Grindavík þar sem Samherji er reyndar stór eignaraðili. Hann er þeirrar skoðunar að margt sé óunnið ennþá í fullvinnslu sjávarafurða og líftækni og spennandi tímar framundan á því sviði. Á Dalvík er gnægð af heitu vatni og landburður jafnan af bolfiski sem er undirstaðan fyrir iðnað af þessu tagi. Á síðasta ári bárust að landi á Dalvík um 20 þúsund tonn af bolfiski og annað eins í höfnum í Fjallabyggð. Vísir að fullvinnslu er á Dalvík því þar rekur Samherji einnig hausaþurrkun. En Bjarni sér hlutina í stærra samhengi. “Það er nauðsynlegt að íslenskur sjávarútvegur fái frið til að þróast og vera laus við hótanir stjórnmálamanna um eignaupptöku og ýmis konar umvandanir í garð greinarinnar”, segir Bjarni.
140 m langur viðlegu- og löndunarkantur rís
„Þá eru hafnar löngu tímabærar framkvæmdir við höfnina. Um er að ræða nýjan viðlegukant. Fyrir síðustu aldamót var stór brimvarnagarður reistur í höfninni og það var alltaf hugmyndin að byggja svokallaðan austurkant sem við höfum núna hafið framkvæmdir við. Viðlegukanturinn verður 140 metra langur. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður nálægt 500 milljónum króna,” segir Bjarni.
Framlag ríkisins til þessara framkvæmda er 60% af kostnaði við viðlegukantinn. Verklok eru áætluð á vordögum en þekjan verður væntanlega steypt í haust þegar efnið hefur náð að síga.
Ljóst er að nýr viðlegukantur mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir jafnt útgerðir heimamanna sem og aðkomubáta. Ný tækifæri opnast með betri löndunaraðstöðu fyrir fiskmarkaðinn á Dalvík sem getur veitt sínum viðskiptavinum bætta þjónustu.
„Það var hátíðarstund fyrir íbúa bæjarins þegar Björgúlfur lagðist hér að bryggju síðastliðið sumar og honum var gefið nafn. Það að fá nýjan togara til heimahafnar skiptir máli fyrir svona pláss. Starfsemi Samherja hérna eykur alla tiltrú og gefur fólki von og trú á framtíðina.“.
Atvinnustig hefur verið hátt í Dalvíkurbyggð og ljóst er umsvifin eiga eftir að aukast umtalsvert. Bjarni bendir á að Eyjafjarðarsvæðið sé orðið eitt atvinnusvæði. Íbúar úr Fjallabyggð, jafnt Siglufirði sem Ólafsfirði, stundi vinnu á Dalvík og öfugt. Einnig starfi margir Dalvíkingar á Akureyri og öfugt. Meiri umferð er milli Dalvíkur og Moldhaugnaháls, sem er afleggjarinn frá þjóðvegi 1 að Dalvík, en yfir Öxnadalsheiði. Þetta er einn fjölfarnasti vegur landsins og einungis fer meiri umferð um þrjár meginæðarnar út úr höfuðborginni.