Hafrannsóknastofnun hefur gefið út ráðgjöf um heildaraflamark grásleppu á yfirstandandi fiskveiðiári og upphafsaflamark 2018/2019.

Stofnunin leggur til að heildaraflamark í grásleppu í ár verði ekki meira en 5.487 tonn. Jafnframt er lagt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2018/2019 verði 1.557 tonn.

Í tilkynningu segir að að því gefnu að veiðum verði stýrt með sama fyrirkomulagi og verið hefur, leggur Hafrannsóknastofnun til að útgefinn dagafjöldi taki mið af fjölda báta sem munu taka þátt í veiðunum. Jafnframt leggur stofnunin til að aukin áhersla verði lögð á skráningu meðafla og eftirlit með brottkasti við grásleppuveiðar.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um endanlegt heildaraflamark fyrir byggir á stofnvístölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2018. Niðurstöður mælinga liggja nú fyrir og reyndist vísitalan vera 6,9 sem er töluvert lægra gildi en mældist á sama tíma í fyrra (8,2). Stofnvísitala grásleppu hefur sveiflast mikið milli ára og því er mikilvægt að afli hvers árs taki mið af stofnstærð sama árs, frekar en ársins á undan. Hins vegar, vegna óvissu í mælingunum, er tekið tillit til vísitölu fyrra árs með vægi 30% á móti nýrri mælingu með vægi 70% við útreikning ráðlagðs hámarksafla.

Grásleppuveiðunum er stýrt með sóknartakmörkunum. Árin 2011 og 2012 voru veiðar leyfðar í 50 daga, 32 daga árin 2013–2016 og 46 daga árið 2017. Fjöldi báta sem tekur þátt í veiðunum er breytilegur frá ári til árs, m.a. vegna aðstæðna á mörkuðum grásleppuhrogna, og hefur það áhrif á heildarafla. Á árunum 2005–2016 var fjöldi báta sem tók þátt í veiðunum á bilinu 144–369 á ári. Árið 2017 tóku 243 bátar þátt, sem er aukning um fjóra báta frá fyrra ári.

Stofnunin mun að lokinni stofnmælingu 2019 veita endanlega ráðgjöf um heildaraflamark fiskveiðiársins 2018/2019.