Sumarið 1905 komu tvær ungar þýskar konur til Fáskrúðsfjarðar þar sem þær bjuggu í nokkra mánuði á Fögrueyri. Þar var þá þýsk hvalstöð og var faðir annarrar þeirra veiðistjóri þar.

Veiðistjórinn hét Heinrich Grohmann og var kaupmaður frá Altona í Þýskalandi, sem nú er partur af Hamborg. Önnur konan var dóttir hans, Anne Grohmann, en hin var mágkona hennar og vinkona, Bertha Stapel.

Bertha var fædd árið 1875, varð því þrítug árið sem hún kom til Íslands, og hafði enga reynslu af hvalveiðum eða hvalavinnslu þegar hún kom til Fögrueyrar. Hún hélt nokkuð ítarlega dagbók um dvöl sína hér á landi og veitir þar góða innsýn í hvernig samfélagið á Fáskrúðsfirði kom erlendri stúlku fyrir sjónir. Lengi vel var ekkert vitað um tilvist dagbókarinnar en Smári Geirsson komst á snoðir um hana þegar hann var að vinna að heimildaöflun fyrir bók sína Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, sem Sögufélagið gaf út árið 2015.

Auk dagbókarinnar lét ungfrú Stapel eftir sig albúm með ljósmyndum frá dvölinni á Fáskrúðsfirði og eru þessar myndir gulls ígildi. Hér eru birtar fáeinar þessara mynda ásamt nokkrum forvitnilegum köflum úr dagbókinni. Dagbókin var gefin út ásamt myndunum í Þýskalandi árið 2010 í ritröðinni Deutsches Schiffartsarchiv, sem er árbók þýska skipaferðasafnsins, Deutsches Schiffartsmuseum. Klaus Barthelmess og Wolf-Rüdiger Grohmann gengu frá henni til birtingar.

Dagbókin
Fröken Stapel fjallar ekki mikið um starfsemina á hvalstöðinni í dagbókarskrifunum heldur gerir hún grein fyrir mannlegum samskiptum og lýsir staðháttum á Fáskrúðsfirði og nágrenni. Hún bjó og starfaði í Villunni, en svo var íbúðarhús veiðistjórans og fjölskyldu hans á Fögrueyri ávallt nefnt.

Hún segir vel frá því sem þar átti sér stað og greinir frá gestakomum og veisluhöldum í tengslum við þær. Þá segir hún frá því þegar Grohmann veiðistjóri þurfti að fara af bæ og sinna ýmsum erindum og stundum fengu þær Anne að slást í för með honum. Í dagbókinni er varpað ljósi á frístundir fólksins í Villunni en Grohmann las gjarnan upp fyrir íbúa hússins á kvöldin.

Stapel greinir frá því þegar fyrirmenn frá Búðum komu í heimsókn í Villuna. Þarna komu kaupmennirnir Davíðsson, Tulinius og Stangeland og fjölskyldur þeirra og einnig Georgsson læknir. Þá komu hinir frönsku kaþólsku prestar á Búðum oftar en einu sinni í heimsókn og þá gjarnan með lækninum sem var franskur konsúll. Eins var oft tekið á móti yfirmönnum skipa sem áttu leið um Fáskrúðsfjörð og þeim boðið upp á veislukost.

Í dagbókinni er greint frá gróðri og landslagi umhverfis stöðina auk þess sem fram kemur að Stapel safnaði fallegum steinum. Lítillega er fjallað um dýralífið fyrir utan hvalina en þó er getið um íslenska hestinn og rottur sem voru plága á hvalstöðvunum á þessum tíma.

Íslendingunum sem Stapel umgekkst er lýst af mikilli hlýju en í Villunni starfaði til dæmis ávallt íslensk ráðskona. Þrátt fyrir að dagbókarritarinn skrifi afar vel um landið og íbúana þá ríkti engu að síður fögnuður í hjarta hennar þegar Fáskrúðsfjörður var kvaddur.

Heinrich Grohmann, Anne dóttir hans og Bertha Stapel sigldu á brott frá Fáskrúðsfirði með gufuskipinu Vesta hinn 25. ágúst 1905.

Lesa má nánar um dagbókarskrif fröken Stapel í hvalveiðisögu Smára Geirssonar og einnig verður gerð ítarleg grein fyrir þeim í væntanlegri sögu Fáskrúðsfjarðar, sem Smári vinnur nú að.

Skammlíf hvalstöð á Fögrueyri
Hinn 13. desember 1902 var stofnað í Hamborg þýska hvalveiðifélagið Die Germania Walfangund Fischindustrie AG (GWFI). Tilgangur félagsins var að reisa og reka hvalstöð á Fögrueyri og hefja hvalveiðar þaðan næsta ár.

Í aprílmánuði árið kom þangað gufuskip með efni í hús, tækjabúnað og starfsmenn hins nýja fyrirtækis sem nánast allir voru norskir. Með í för var einnig Dr. Carl Paul, ungur efnaverkfræðingur frá Pillau í Austur-Prússlandi, sem hafði verið ráðinn til að gegna starfi veiðistjóra í hvalstöðinni á Fögrueyri.

Húsin risu þar hvert af öðru: Ketilhús, spikbræðsla, kjötsuðuhús, gúanóverksmiðja, pressuketilhús, tveir íbúðabraggar, verkstæðishús og smiðja ásamt fleiri byggingum. Einnig var byggð myndarleg bryggja og rúmgott flensiplan þar sem hvalurinn skyldi skorinn.

Það var þó íbúðarhús veiðistjórans, Villan, sem vakti hvað mesta athygli fyrir utan verksmiðjuhúsin sjálf, en þau voru járnklædd stálgrindarhús.

Vonbrigði með reksturinn
Tap varð á starfsemi hvalstöðvarinnar strax fyrsta árið og reksturinn skánaði lítið næstu árin. Á fyrstu vertíðinni færðu hvalveiðibátarnir tveir, sem hétu Germanía og Ísland, 47 hvali að landi og nam lýsisframleiðslan 1428 fötum. Þessi veiði var þó langt undir meðaltalsveiði á vertíðinni auk þess sem allskonar vandamál komu upp við vinnslu á hvalnum.

Á vertíðinni 1904 komu hvalveiðibátarnir með samtals 85 hvali að landi, en þrátt fyrir að veiðin væri góð héldu vandræðin við vinnsluna áfram og að auki lækkaði markaðsverð á hvallýsi mjög þetta árið. Eins og árið áður var tap á starfseminni þrátt fyrir ríkisstyrk.

Sumarið 1904 tók stjórn hvalveiðifélagsins þá ákvörðun að senda einn stjórnarmann til Íslands til að kanna hvers vegna starfsemin á Fögrueyri gekk ekki betur en raun bar vitni. Til fararinnar valdist fyrrnefndur Grohmann kaupmaður frá Altona.

Hann tók við veiðistjórastarfinu í byrjun næstu vertíðar og kom til Fögrueyrar hinn 13. maí 1905 ásamt dóttur sinni og vinkonu hennar, Berthu Stapel, þeirri sömu og skrifaði dagbókina. Vegna óvæntra veikinda gegndi Grohmann starfi veiðistjóra þó aðeins til 22. júlí en þá tók við starfinu Julius Tadsen, fyrrverandi skipstjóri sem naut mikils trausts stærsta eiganda þýska hvalveiðifélagsins.

Veiðin á vertíðinni 1905 olli engu að síður vonbrigðum. Heildarveiðin var einungis um 60 hvalir og var lýsisframleiðslan 1800 föt. Það varð því úr að starfseminni var hætt árið 1905, að lokinni þriðju vertíðinni.

Úr dagbók Berthu Stapel

Laugardaginn 13. maí
Loks kom stöðin okkar í ljós. Fyrst Villan. Gult timburhús á einni hæð, síðan svolítil höfn, lækur sem hátt ofan úr fjalli, og þar næst byggingin sem nauðsynleg er til vinnslu hvalanna við hliðina á geymslu- og íbúðarhúsum fyrir verkafólkið. Við biðum lendingar full af eftirvæntingu og loksins klukkan hálfníu varð hún að veruleika. Allir farþegarnir fóru í land ásamt okkur. Allir hjálpuðu til við að bera eitthvað af farangri okkar. Smiðurinn, sem hafði staðið þarna vaktina yfir veturinn, kom á móti okkur, afhenti O.H. lykilinn og nú var haldið í villuna. Þá sá maður strax að við myndum ekki eiga eftir að láta okkur leiðast, því hér voru næg verkefni. Forverar okkar, Dr. Paul og fjölskylda hans, virtust ekki hafa verið mikið fyrir að halda hlutunum í röð og reglu. Sama mátti segja um þjónustustúlkurnar tvær. Til allrar hamingju sendi Endersen skipstjóri okkur strax úr kaupstaðnum íslenska stúlku sem hjálpaði okkur að minnsta kosti við að sinna sóðalegustu verkunum.

Við byrjuðum á því að henda út um gluggann öllum þeim rúmfötum sem við fundum í Villunni og beint á grasblettinn, þar sem þau lágu allan daginn í sólskininu. Þar sem ekki var enn búið að koma vatnslögnum okkar í lag þá þurftum við í þrjá daga að sækja vatn út í næsta læk í fötum. Fyrstu hádegismáltíðina létum við senda okkur frá kokkinum, plómusúpu með hrísgrjónum, fiskibollur með kartöflum. Ég hef komist í betri mat. Kvöldmatinn elduðum við sjálf, að vísu var samsetningin frekar undarleg, en vínarpylsur, tvíbökur, smjör og hindberjasulta smakkaðist býsna vel. Daginn eftir tók bakarinn til við að baka, þá kom nýtt brauð á hverjum degi og á sunnudögum meira að segja jólakaka.

Keppst við bréfaskriftir
Fljótlega eftir kvöldmatinn fréttum við að eftir klukkustund myndi skip sigla framhjá, og það gæti ef til vill tekið með sér póst frá okkur. Núna sitja því allir við að skrifa eins hratt og eins mikið og nokkur kostur er á. Síðan héldum við áfram að taka upp úr töskunum okkar og hlökkuðum til að komast í rúmið, sem var að minnsta kosti stöðugt og vaggaði ekkert, þótt ekki væri það sérlega mjúkt.

Sunnudaginn 14. maí
Um morguninn fjarlægðum við þær vistir sem enn var að finna í kjallaranum, opnuðum fleiri kistur og röðuðum upp nýju vistunum. Síðdegis fórum við í þægilegan göngutúr. Við klifum fjallið beint fyrir aftan Villuna okkar, sem við skírðum Bertane, og þaðan var dásamlegt útsýni yfir hafið. Um leið sáum við í um það bil stundarfjórðungs fjarlægð íslenskan bóndabæ og enn lengra nokkur hús að auki. Það reyndist sérstök og áhugaverð sjón.

Í nágrenninu fundum við stór svæði með bæði stórum og litlum steinum, ávölum og svo sléttum að það var eins og mannshöndin hefði útbúið þá. Síðan voru til skiptis grasfletir og mýrlendi með litlum og töfrandi rauðum blómum, þar á milli stóðu upp úr bæði stórir og litlir klettadrangar, stakir steinar sköguðu upp úr mýrinni í fjölbreytilegum litum, rétt eins og listamaður hefði raðað þar niður mósaíkflísum.

Nágrannarnir
Nú nálguðumst við bóndabæinn en sáum fljótt að íbúarnir drógu sig feimnir til baka og lokuðu dyrunum á eftir sér. Við létum ekki hræða okkur burt svo auðveldlega, gáfum börnunum appelsínurnar sem við tókum með og öðluðumst þannig trúnað þeirra að nokkru marki. Smám saman slaknaði þá á fólkinu þegar það áttaði sig á því að við sýndum þeim vinsemd og vildum kaupa mjólk handa okkur. Ótti þeirra og óbeit voru heldur ekki ástæðulaus þar sem forverar okkar höfðu sífellt haft í hótunum við þau hvenær sem þau nálguðust. Á endanum fór það svo að eiginmaðurinn, sem hét Magnús, bar sjálfur eggin og mjólkina fyrir okkur heim, og sýndi okkur jafnframt aðra leið sem var nær og auðveldari yfirferðar.

Samræðurnar fóru mjög hægt af stað, íslenskan er óskiljanleg með öllu og danskan hans var af skornum skammti; samt skildum við í bestu sátt.

Eftir það kom fjölskylda Magnúsar daglega með nýja mjólk og egg til okkar. Báðir elstu drengirnir þeirra störfuðu um hríð á stöðinni okkar, þar sem þeir lærðu dönskuna mjög vel með því að eiga í samskiptum við okkar fólk og gátu nú verið túlkar milli okkar og foreldra sinna.

Til þess að vera með réttan íslenskan tíma hefðum við þurft að stilla klukkurnar okkar tveimur tímum síðar, en þar sem formaðurinn okkar, Abrahamson, fullyrti að vegna sólarstöðu væri það enn meira þá skiptum við muninum á milli okkar. En þar sem næturnar eru ekki dimmar, heldur bjartar sem dagur, þá gleymir maður auðveldlega að fara snemma í háttinn, auk þess sváfum við ekki sérlega vel til að byrja með, þótt það megi líklega að hluta skrifa á reikninga rúmanna, sem voru frekar hörð, maður þarf að venjast þeim.

Fyrsti hvalurinn
Þriðjudaginn 16. maí
Þann 16. maí var komið með fyrsta stóra hvalinn á flensiplanið. Það var steypireyður, ríflega 20 metra löng. Spilið vann hægt en örugglega og þegar risadýrið var komið upp hófust verkamennirnir strax handa við nota stóru spikhnífana, sem voru með löngu, sveru skafti, til að losa ca. tíu sentímetra þykkt spiklagið frá. Það er síðan skorið í eins feta breiðar ræmur og ýtt frá flensiplaninu beint í gegnum spikgatið inn í stóra trekt. Hún leiddi síðan inn í spikhúsið þar sem stórir snúningshnífar skáru stykkin niður og þeir voru síðan fluttir viðstöðulaust með samhangandi járnbölum, alveg eins og í baggavél, upp í fjóra mismunandi katla. Úr þessu verður besta lýsið nr. 1.

Vélvirkinn Nicklaus hafði farið í tilraunasiglingu með vélbátinn okkar og þar sem hún tókst vel og við vildum gjarnan kaupa ýmsa hluti til búshaldsins, þá fórum við síðdegis í kaupstaðinn með Guðrúnu, þjónustustúlkunni okkar. Veðrið var dýrlegt en samt tók það meira en klukkustund fyrir okkur að komast þangað, þótt hægt sé að fara þessa leið á ríflega hálftíma.

Kaupstaðarferð
Á bryggjunni tók á móti okkur herra Davíðsson, verslunarstjórinn hjá Túliníusi, og keyptum við hjá honum helstu nauðsynjar. Við kættumst við hvern smáhlut, Anne sérstaklega út af nokkrum borðdúkum en ég frekar yfir litlum tekatli.

Á pósthúsinu keyptum við mörg frímerki af öllum gerðum til að geta fullnægt söfnunaráráttu nokkurra vina okkar. Georgsson læknir hafði með höndum sölu póstkorta, þannig að við gerðum okkur ferð til hans. Hann tók mjög elskulega á móti okkur, bar strax á borð fyrir okkur freyðivín og kökur, og svo lét hann okkur fá öll kortin sín til að geta selt þau starfsfólkinu okkar. Í þessum litla bæ, Búðum, þar sem 270 manns bjuggu, er franskt sjúkrahús sem Georgsson læknir stjórnar, og satt að segja er nú fyrst verið að reisa þar nýtt og stórt hús, og er von á innréttingunum í það með frönsku beitiskipi.

Á höfninni lágu margir franskir fiskibátar, sem hreinsa hér fiskana sína og útvega sér ferskt vatn. Við höfðum ekki tíma til að leita uppi franska prestinn, klukkan var orðin sjö og við fórum um borð í vélbátinn með innkaupavörurnar okkar.

Vélarbilun á firðinum
Nú kom hin skelfilega heimför. Við komumst með erfiðleikum frá bryggjunni og þegar við vorum komin skammt á veg stöðvaðist vélin. Honum Nicklaus okkar tókst að vísu að koma henni í gang nokkrum sinnum, en alltaf bara í stutta stund. Rokið var á móti okkur og þannig rak okkur út á miðjan fjörð án þess að geta rönd við reist. Til allrar hamingju tók fólk í litla bænum eftir því hve hjálparvana við vorum og okkur létti þegar við sáum að vélbátur kom þaðan og stefndi beint til okkar á fullri ferð. Við vorum orðin verulega hrædd, auk þess valt báturinn mikið af því hann var stjórnlaus, þannig að Anne fékk aftur vott af sjóveiki. Þegar vélbáturinn var kominn nánast upp að okkur þá rétti ungur kurteis maður okkur dráttartaug og nú gekk vel að komast heim. Við komum að stöðinni okkar eftir klukkan tíu, algerlega búin, þreytt og svöng.

Ungi maðurinn beið ekki þess að við þökkuðum honum fyrir, sem hann þó aldeilis átti inni hjá okkur því það hefði svo sannarlega ekki verið sérlega þægilegt fyrir okkur að hafa kannski þurft að hrekjast um á hafinu alla nóttina. Við vorum vart komin að landi þegar hann kvaddi aftur kurteislega og hvarf á brott á farkosti sínum. Síðar fréttum við að hann væri sonur norska verksmiðjueigandans Stangeland. Þetta ónotalega ferðalag varð til þess að mér leið harla illa, þannig að áður en ég hélt í rúmið gaf ég frá mér yfirlýsingu: Tíu hestar gætu ekki togað mig yfir í þetta gamla skran.

Frá morgni til kvölds
Miðvikudaginn 17. maí.
Starfið á stöðinni gegn nú sinn eðlilega gang, hafist er handa klukkan 6 að morgni, seinni morgunmatur er frá 8 ½ til 9, hádegishlé milli 12 og 1, kaffi frá 3 til 3 ½ og svo unnið áfram til klukkan 7. Fólkið er nægjusamt, kurteist og viljugt, en töluvert hæglátara í vinnu en þýsku verkamennirnir okkar. Nú vorum við líka búin að skipta með okkur verkum í Villunni. Anne tekur að sér efri hæðina og ég jarðhæðina. Nú er komin regla á líf okkar. Fyrri morgunmaturinn er klukkan 7 ½.

Þegar ég leit út um svefnherbergisgluggann sá ég oft Heinrich frænda standa á bryggjunni, þar sem hann krækti sér í litla fiska. Þetta tók hann ekki nema nokkrar mínútur, því mikil gnægð er af fiskum og kvikindin bíta fljótt á agnið þegar kyrrt er í sjóinn. Hún Guðrún okkar hafði sérstakt lag á að aflífa og gera að fiskinum, sem auðvelt er að útskýra enda samanstanda máltíðir Íslendinga nánast eingöngu af soðnum fiski og í mesta lagi einhverju lambakjöti. Þegar ég hafði svo steikt fiskinn fallega og fært Heinrich frænda hann til árbíts þá gladdi mig hve vel honum smakkaðist það. Við Anne vorum meira fyrir kjötmáltíðir af hvaða tagi sem er eða soðin egg heldur en fiskréttina. Hádegismatur var klukkan tólf og eftir það kom fegursta augnablik dagsins, eins og ég var sagði gjarnan, en það var ljúfur miðdegislúrinn. Kaffibollinn klukkan þrjú var virkilega hressandi fyrir okkur öll, og eftir það var komið að hinni sameiginlegu skrifstofuvinnu okkar.

Ég verð því miður að játa að í fáein skipti kostaði hún mig tár, því allt var svo framandlegt og óvanalegt, og ég klaufaleg í allri skrifstofuvinnu. Hefði Heinrich frændi ekki alltaf farið yfir vinnuna mína af mikilli þolinmæði og óendanlegu umburðarlyndi, þá held ég að ég hefði annars misst allan áhuga á henni. Til hvers eru líka mistökin ef þau eru ekki gerð, sagði Heinrich frændi oft við mig mér til hugarhægðar. Þess vegna fagnaði ég iðulega þegar klukkan sló sex, því þá var kominn tími til að fara í okkar daglega göngutúr. Við teygðum yfirleitt úr honum til klukkan átta og sinntum handavinnu og lestri eftir að hafa snætt kvöldmáltíðina.

Sunnudaginn 21. maí
Við Anne flýttum okkur mjög við húsverkin til að geta hafist sem fyrst handa við bréfaskriftir. Við vorum varla sest við borðið þegar Hólar sigldu framhjá, eftir að hafa sett tvo herramenn í land handa okkur. Þetta voru Georgsson læknir og Davíðson faktor, sem vildu endurgjalda okkur heimsóknina. Þeir þáðu strax boð okkar um að koma í hádegismat, ein dós með nýrnaragú og aspasstöngum var opnuð með hraði og við áttum virkilega notalega stund yfir matnum. Í eftirrétt vor ávextir frá Kaliforníu, smjör, ostur og appelsínur. Kaffi með kexkökum var borið fram í stofunni. Mennirnir dvöldu hjá okkur síðdegis og af hreinni tilviljun komst ég að því að doktorinn talaði alls ekki svo slæma þýsku, sem mér fannst ósköp notalegt. Í þetta skiptið gekk heimförin með vélbátnum betur.

Fimmtudaginn 25. maí
Snemma morguns uppgötvuðum við Anne að okkur vantaði litlar eldhúströppur sem við ætluðum að nota til að hengja þvott á. Heinrich frændi kunni að sjálfsögðu ráð við því, enda voru smíðar eitt af því sem hann hafði mest yndi af. Þannig að hann útbjó handa okkur litlar tröppur úr barnarúmgrind sem hann fann. Úr afganginum af timbrinu smíðaði Heinrich frændi lítinn fótskemil handa okkur báðum, sem kom að góðu gagni. Um klukkan átta kom Mjölnir og Endersen skipstjóri varpaði akkeri rétt hjá bryggjunni. Hann lofaði okkur að koma næst með ferskt grænmeti og þá sérstaklega nýjar kartöflur. Við vorum svo glöð að sjá aftur öll þessi kunnuglegu andlit.

Brúðkaupsgestir á ferð
Föstudaginn 26. maí
Síðdegis fljótlega eftir kaffi sáum við hóp af konum og körlum koma ríðandi niður fjallið í áttina að villunni okkar og stíga af baki. Það voru Íslendingar frá Fáskrúðsfirði, sem voru að ríða til brúðkaups á Stöðvarfirði. Þau vildu fá að skoða stöðina hjá okkur og hvíla sig eitthvað, þar sem þau áttu fjögurra tíma reið eftir í áfangastað. Við bárum þeim kaffi og kökur, samræðurnar gengu stirðlega, þar sem við skildum hvort annað illa. Klukkan sex kvöddu þau og handaböndunum ætlaði aldrei að linna, loks héldu þau á harðaspretti upp fjallið, ennþá veifandi klútum í kveðjuskyni, og brátt hurfu þau okkur sjónum. Fyrir okkur var þetta svolítil tilbreyting.

Sunnudaginn 28. maí
Nálægt hádegi skánaði veðrið. Síðdegis kom Hansen skipstjóri með kol handa okkur á þriggja mastra skonnortunni sinni Valkyrien. Klukkan fjögur komu Íslendingarnir til baka frá brúðkaupinu í Stöðvarfirði, það voru níu manns. Þeir vildu ekki koma inn fyrir, aðeins segja Tak for sidst.

Gönguferð í góðu veðri
Strax á eftir kom annar nágranni okkar, Sigbjörn Vik, með lítinn og feitlaginn gráan hest, sem hárin fuku hreinlega af þegar maður klappaði honum eða strauk. Hann spurði hvort Guðrún mætti ekki heimsækja konuna sína, sem var vinkona hennar. Ég lét mér auðvitað tækifærið ekki ganga úr greipum að reyna mig á hestbaki. Þegar Dómkirkjumarkaðurinn var og hét á sínum tíma hafði ég nokkrum sinnum riðið á hesti í Hippodrom-reiðvellinum og það gekk ekkert mjög illa. En þessi litli íslenski grái hestur vildi ekki hreyfa sig úr stað. Þá kom Guðrún okkar búin til reiðar út um dyrnar, ég lét henni heldur niðurdregin eftir söðulinn, og hún sveiflaði sér upp í hann og þaut samstundis af stað á hestinum gráa geislandi af gleði eins og konungsdóttir. Við hin héldum fótgangandi á eftir þeim.

Loftið er dásamlega frískandi, af og til koma litlar þokuslæður og á himni er fallegur regnbogi. Við fylgjum reiðveginum, Guðrún er löngu horfin okkur sjónum. Að lokum komum við að breiðri og djúpri á, sem streymir gjálfrandi í litlum fossum niður í fjörðinn. Við neyðumst hér til að nema staðar og hætta við heimsóknina í Vík, því við finnum hvergi leið til að komast yfir, sama hvað við reynum. En hér er alveg dásamlegt að vera, nokkur snjór er enn í skuggsælum hornum, en á sólríkum stöðum er strax byrjað að spíra og blómstra. Við söfnum ýmsum mosategundum og tínum lítil blóm úr jörðu með rótinni á, hnýtum þær inn í vasaklútinn hans Heinrichs frænda og gróðursetjum þær eftir að við komum heim í stórum kassa inn á milli litríkra steina, og það verður svolítið sýnishorn af íslenskum fjallagróðri til að skreyta garðinn okkar, sem annars er býsna eyðilegur útlits.

Guðrún kemur til baka stuttu á eftir okkur, háreist á hestinum með syni Víks við tauminn. Hún er komin aftur heim með rauða vanga og afskaplega sátt og ánægð. Eftir kvöldmatinn les Heinrich frændi fyrir okkur úr Leberecht Hünchen, á meðan við sinnum handavinnu, þetta var fagur sunnudagur.

Mánudaginn 29. maí
Veðrið er síbreytilegt, stundum sólskin, stundum aftur rigning og stundum breytir um veður átta sinnum á dag. Við fylgjumst ákaft með hvalveiðibátunum. Síðdegis förum við stutta ferð til Bertane, hafið virðist róast um stund, við förum niður að strönd og strandveginn til baka, klifrum stundum yfir hrjúfa kletta, sem eru afar áhugaverðir en sýna þarf fyllstu aðgætni. Hér uppgötvum við einnig sérstæðar, kristalkenndar steinmyndanir sem glitra eins og frosinn snjór og hafa mögulega steinrunnið þannig. Nærri allir steinarnir í fjörunni eru slípaðir og ávalir, og í bland eru litríkir molar er líkjast brennisteini. Undir það síðasta, rétt fyrir miðnætti, kemur Germanía með fallegan hval.

Dimmt og hvasst og blautt
Fimmtudaginn 1. júní
Heinrich frændi fer með póstinn okkar í bæinn og kemur til baka i fylgd með Georgssyni lækni. Það er svo dimmt að við þurfum í fyrsta skipti að kveikja á lampa.

Föstudaginn 2. júní
Um nóttina jókst mjög rokið og rigningin, í Villunni okkar hafði alls staðar rignt inn, sérstaklega slæmt var það í borðstofunni og svefnherberginu. Læknirinn kom til okkar í mat, en því miður tókst mér ekki sérlega vel upp við matargerðina. Það voru kjötbollur, plómur og flesk. Fleskið var svo hart að varla var hægt að njóta þess að borða það. Síðan hjálpaði læknirinn okkur að sá káli, radísum og gulrótum. Seinna kom Ingwald í þýskukennslu og tók Guðrún líka þátt í henni af eldmóði.

Þriðjudaginn 18. júlí
Doktorinn kemur með báða frönsku prestana. Eftir að við höfðum drukkið kaffi skoruðu mennirnir á okkur að koma með þeim að veiða silung, sem við vildum gjarnan læra að gera. Þeir höfðu tekið veiðigræjurnar sínar með. Við héldum svo öll af stað. Hjá bóndabæ Magnúsar leituðum við að ormum og fundum. Silungsaflinn okkar er samt ekki stór. Heinrich frændi gafst fljótt upp. Doktorinn veiddi sex fiska og stutti, feiti presturinn ekkert, þess í stað datt hann í vatnið og þurfti að hraða sér burt til að þurrka sig í vélarhúsinu. Við gengum nú að klettaströndinni þar sem lækurinn rennur út í fjörðinn, og sérstætt en hrífandi landslagið kom okkur á óvart. Þegar við komum til baka var fallegt veður, loftið næstum því mollulegt. Þá var íslenski presturinn Friðriksson kominn, en hann er á ferðalagi á vegum norska trúboðsins og bað um að fá að efna til fundar á stöðinni okkar. Við erum núna með þrjá presta og doktorinn við kvöldverðarborðið, og þá liggur hún Guðrún okkar í rúminu að boði læknisins vegna magakveisu. Strax eftir matinn hafa Búðamenn sig á kreik því þeir eru bara með seglbátinn sinn og hafa hvassviðrið á móti sér. Séra Friðriksson heldur þetta kvöld guðsþjónustu í einum skálanna, og notar tröppurnar fyrir predikunarstól. Svo gistir hann í sama skálanum um nóttina.

Biðin eftir Vestu
Fimmtudaginn 24. ágúst
Í dag eigum við örugglega von á Vestu, og öll hlaupum við hundrað sinnum út í glugga til að fylgjast með. Það er óþægilegt að sitja með farangurinn pakkaðan í töskum og vita ekki hvort maður eigi að taka upp úr þeim aftur eða ekki.

Föstudaginn 25. ágúst
Þegar við fórum á fætur klukkan sex huldi hvít þoka allan fjörðinn en fjallstopparnir, gylltir af lýsingu sólarinnar, teygðu sig upp úr þokunni, ógleymanlega fögur sjón. Sólin var þó fljót að spilla þokunni, veðrið er dásamlegt, rétt eins og fagur haustdagur hjá okkur. Íslendingarnir fullvissuðu okkur um að skipin hafi aldrei áður komið svona seint og þess vegna tókum við að óttast að eitthvað hafi komið fyrir skipið, kannski vélarbilun eða eitthvað þvíumlíkt. Eftir hádegismatinn byrjuðum við að taka aftur upp úr farangrinum, ég þvoði meira að segja nokkra sokka, blússur og fleira, og við fórum í gríðarmikinn göngutúr til að dreifa eitthvað döprum hugum okkar. Frá því 22. ágúst vorum við ekki lengur með neina þjónustustúlku, og þetta voru virkilega óþægilegir dagar.

Brottförinni fegin
Meðan við vorum að útbúa kvöldmatinn í eldhúsinu skaut Vesta skyndilega upp kollinum yst við sjóndeildarhring. Gleði okkar verður ekki með orðum lýst. Við vorum fljót að pakka aftur niður, tókum meira að segja blautan þvottinn af snúrunni, og höfðum varla eirð í okkur til að snæða kvöldmatinn. Þá fórum við með vélbátnum, sem klikkaði ekki að þessu sinni, til bæjarins. Þar lá Vesta tilbúin til að taka á móti okkur. Töfina miklu mátti rekja til þess að um borð var mikill ullarfarmur og hvassviðri hafði geisað. Mikið vorum við þrjú nú glöð eftir að Georgsson læknir hafði heimsótt okkur í síðasta sinn í kveðjuskyni, að geta hafið ferðina til baka. Klukkan tvö sigldum við frá Fáskrúðsfirði, komum til Berufjarðar klukkan sex og héldum þaðan klukkan 8 ½ . Fljótlega tókum við eftir því að Vesta hafði tilhneigingu til þess að dansa á öldunum vegna hins létta ullarfarms. Anne þurfti þá strax að fara í koju, og það með látum. Því miður þurfti ég einnig að leggja mig. Klukkan þrjú síðdegis sigldum við framhjá Germaníu, sem virtist vera á höttunum eftir tveimur hvölum, hún dró þýska fánann að hún og við heilsuðum henni einnig.