Víðir Jónsson skipstjóri á frystitogaranum Kleifabergi hlaut Íslensku sjávarútvegsverðlaunin 2014 í flokknum „Framúrskarandi fiskimaður“, en verðlaunin voru afhent við athöfn í Gerðasafni í Kópavogi í gærkvöldi.
Í umsögn dómnefndar sagði: „Víðir þekkir fiskimiðin flestum skipstjórum betur og hefur byggt upp þrautþjálfaða áhöfn sem náð hefur ótrúlegum afköstum í vinnslu.
Kleifabergið, sem er orðið 40 ára gamalt skip, veiddi og vann rúmlega 11.200 tonn af fiski á árinu 2013 og nam aflaverðmætið tæplega 2,7 milljörðum króna. Ekkert botnfiskveiðiskip hefur náð slíkum árangri fyrr og óneitanlega vekur athygli að hér skuli vera um að ræða einn elsta frystitogara landsins.
Því má bæta við að á nýliðnu fiskveiðiári nam afli skipsins 11.786 tonnum eða sem svarar um 1.000 tonnum að meðaltali í hverjum mánuði.