Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gær. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri sagði í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar að túrinn hefði gengið vel.

„Þetta var stutt og laggott. Fínasta veður og ágætis veiði. Við byrjuðum á Péturseynni og tókum þar þrjú eða fjögur hol. Síðan færðum við okkur á Ingólfshöfðann og þar gekk þetta vel. Aflinn var mest þorskur en annars var þetta blandað; ýsa, langa, steinbítur og koli. Við lönduðum líka á miðvikudaginn eftir mjög stuttan túr. Veiðin í þeim túr var heldur róleg en þá fékkst mest af ýsu. Nú er framundan hjá okkur að njóta sjómannadagshelgarinnar,” sagði Birgir Þór.

Systurskip Vestmannaeyjar, Bergur VE, er í slipp á Akureyri og mun hann ekki hefja veiðar á ný fyrr en eftir tvær eða þrjár vikur.