Umgjörð fiskveiða hér við land hefur tekið stórfelldum breytingum frá því Grétar Rögnvarsson skipstjóri fór sinn fyrsta túr fyrir hálfri öld. Hann ræðir kvótakerfið og sjómennskuna í jólablaðsviðtali í Fiskifréttum.
„Það breyttist náttúrlega mjög mikið við kvótakerfið til batnaðar fyrir mörg bæjarfélög. Eins og sjávarútvegurinn var þá var ekki rekstrargrundvöllur hjá öllum þessum fyrirtækjum. Þau voru sameinuð mörg í stærri félög, eins og við þekkjum með Samherja og Síldarvinnsluna og þessi stóru félög,“ segir Grétar sem sér þó framsal kvótans sem óæskilegan fylgifisk kerfisins.
Óeðlilegt að menn geti selt kvótann í sjónum
„Persónulega er ég ekkert hrifinn af framsali; að menn geti selt kvótann í sjónum, mér finnst það óeðlilegt – þó að ég hafi nú alveg notið góðs af því að það hefur verið keyptur kvóti undir mann til að veiða. Það er dálítið siðlaust,“ segir Grétar sem undirstrikar þó að kvótakerfið hafi reynst nauðsynlegt og að það hafi sýnt sig að gera þyrfti félögin stærri og öflugri.
„Ég er hlynntur kvótakerfinu. Það hefur alveg verið vegið harkalega að greininni en það hefur þá kannski verið fólk sem hefur ekki þekkingu á henni, það er yfirleitt þannig,“ segir Grétar.
Mælir hiklaust með sjómennsku
Spurður hvort hann geti hvatt fólk til að fara á sjóinn segist Grétar gera það alveg hiklaust.
„Þetta eru vel launuð störf. Það er auðvitað fjarvera – menn eru að fórna með því að vera á sjó – þótt þetta sé náttúrlega öðru vísi í dag heldur en var. Það er meira um að menn séu í skiptikerfum og rói ekki eins og var hér áður fyrr þegar maður var kannski 320 til 340 daga á sjó yfir árið,“ segir Grétar. Þannig hafi það verið þegar hann var að byrja.
Menn réðu sig bara á sjó og voru bara á sjó
„Maður var bara á sjó allt árið. Það var kannski tekið eitt smá sumarfrí og svo var bara alltaf verið á sjó. Það hefur mikið breyst. Það var bara ekkert annað sem þekktist. Menn réðu sig bara á sjó og voru bara á sjó. Tóku kannski eitt stutt sumarfrí og búið,“ segir Grétar. Í dag séu oft tveir menn um eitt pláss.
„Það eru oft tvær áhafnir eða ein og hálf áhöfn eins og við höfum verið með mikið síðustu ár hjá okkur á Jóni Kjartanssyni.“
Þriðji og síðasti hluti jólablaðsviðtalsins við Grétar Rögnvarsson birtist hér á vef Fiskifrétta á morgun. Þar ræðir hann áform sín og konu sinnar Ingu Rúnar Beck sem ætla að njóta lífsins fram undan.