Mainstream AS, eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum Noregs, hefur sett upp nýja útgáfu af  heilfiskflokkara- og pökkunarkerfi frá Völku. Kerfið hefur verið í notkun í fimm mánuði og reynst vel.

„Helstu kostir nýja kerfisins eru framleiðsluaukning og betra vinnsluferli. Við höfum náð að tvöfalda framleiðsluna  - eins og vonir stóðu til -  með sama starfsmannafjölda og áður. Annar mikilvægur kostur er að það er mjög auðvelt að þrífa kerfið,“ segir Knut Larsen, vinnslustjóri hjá Mainstream AS.

Með Völku kerfinu næst meiri sjálfvirkni í flokkun og pökkun á heilum laxi en áður hefur þekkst. Nýir algóriþmar eru notaðir til að flokka heilfisk í kassa eftir fastri eða breytilegri þyngd. Kerfið raðar í kassana, ísar þá, lokar og setur á bretti. Framleiðslugetan er 150 tonn á sólarhring með aðeins 8-10 starfsmönnum.