Fyrstu skrefin voru stigin við framleiðslu jólasíldar Síldarvinnslunnar í Neskaupstað 26. september síðastliðinn. Þá kom Börkur NK með gæðasíld til vinnslu og var ákveðið að verka síld úr farmi hans til framleiðslu á jólasíldinni. Síldin var flökuð og skorin í bita og síðan sett í kör með saltpækli. Eftir ákveðinn tíma fór hún síðan í kör með edikspækli. Nú er síldin komin í tunnur með edikspækli og í þeim marinerast hún í einar þrjár vikur . Eftir það verður hún tilbúin að fara í fötur með tilheyrandi kryddjurtum og sykri. Þetta er gróf lýsing á framleiðsluferlinu en nákvæmari lýsing fæst ekki," að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Margt sem tengist jólasíldinni er nefnilega framleiðsluleyndarmál en framleiðslan byggir á áratuga gamalli uppskrift sem er mótuð af Haraldi Jörgensen og Jóni Gunnari Sigurjónssyni.
Það eru margir sem spyrja um jólasíldina þegar ætla má að framleiðsla hennar sé hafin og ljóst að fólk fær vatn í munnin við tilhugsunina um hina gómsætu síld. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Odd Einarsson yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og spurði hann hvort starfsfólkið yrði vart við hve fólk væri spennt fyrir jólasíldinni.
„Já, svo sannarlega. Það kom mér á óvart þegar ég byrjaði að vinna hér hve spenningurinn var mikill. Mér fannst dálítið skrítið hvað fólk sýndi jólasíldinni mikinn áhuga enda er ég sveitastrákur ofan úr Fellahreppi. Mér finnst gaman að upplifa þessa spennu, hún er einstök. Þegar jólasíld er framleidd eru gerðar miklar kröfur til hráefnisins. Til framleiðslunnar viljum við fá stóra og fallega norsk-íslenska síld sem veidd er hér rétt fyrir utan þannig að hún er eins fersk og mögulegt er. Það er líka gaman að heyra álit fólks á síldinni okkar. Það er einfaldlega sagt að hún sé besta síld sem völ er á. Það er alltaf fjör hjá okkur þegar síldin er sett í föturnar með tilheyrandi jurtum og hér hlakkar fólk til að taka þátt í því,” segir Oddur.
Jólasíld Síldarvinnslunnar er framleidd fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar og þá sem tengjast fyrirtækinu. Hosurnar, líknarfélag starfsmanna Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, fær þó síld í ákveðnu magni sem er seld til styrktar sjúkrahúsinu.